„Fáni ISIS“ auglýsti kynlífsleikföng

Þátttakendur í gleðigöngunni í London um helgina. Ekki skal rugla …
Þátttakendur í gleðigöngunni í London um helgina. Ekki skal rugla þeim saman við liðsmenn Ríkis íslams. AFP

Bandarísku fréttastöðinni CNN varð heldur betur á í messunni þegar stöðin greindi frá því að svartur og hvítur fáni íslömsku hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams hefði sést á meðal litskrúðugra fána í gleðigöngu í Lundúnum um liðna helgi. Í ljós kom að fáninn átti meira skylt við gervilimi en limlestingar. Fréttin hefur verið dregin til baka, að því er segir á vef Guardian.

Í henni var rætt við fréttamanninn Lucy Pawle sem sagðist hafa tekið eftir fánanum í gleðigöngunni sl. laugardag. Pawle tók ljósmyndir og sagði að fáni ISIS hefði ekki átt að fara fram hjá neinum í göngunni og í raun furðaði hún sig á því að enginn annar hefði veitt fánanum eftirtekt. Hún sagðist ennfremur hafa séð svartklæddan veifa fánum.

Pawle tók hins vegar fram að í raun væri þarna um að ræða vonda eftirmynd af fána hryðjuverkasamtakanna. Þetta hafi hins vegar verið augljós tilvísun í ISIS. 

„Ef grannt er skoðað, þá er þetta [letrið] ekki arabískt. Í raun þá lítur þetta út fyrir að vera bull, en hann er mjög auðkennendi - fáni ISIS,“ sagði Pawle í samtali við fréttaþul CNN

„Svo virðist að ég hafi verið eina manneskja sem hafi veitt þessu eftirtekt, og enginn virðist hafa gert nokkrar athugasemdir eða bent á þetta. Ég fór þegar í stað til skipuleggjenda göngunnar sem sagðist ekki hafa neina vitneskju um málið.“ sagði Pawle ennfremur.

Þá sagðist hún hafa rætt við lögreglumenn á svæðinu, sem könnuðust heldur ekki við neitt. 

Fram kemur í frétt Guardian, að áhorfendur CNN hefðu bent Pawle á mistökin. Fánin hafi augljóslega sýnt gervilimi sem hafi átt meira skylt við hreðjar en hryðjuverk. Þetta hafi því verið ys(is) og þys yfir engu.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/5y6qTLf0AI4" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert