Fór ein á ströndina þennan dag

Þrír karlmenn, allir úr sömu fjölskyldunni, eru meðal þeirra sem létu lífið er árás var gerð á ferðamannastað í Túnis á föstudag. Patrick Evans, 78 ára, Adrian Evans, 44 ára og Joel Richards eru meðal 39 fórnarlamba hins 24 ára Sei­feddine Rezgui en þeir voru saman í fríi ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum.

Carly Lovett, 24 ára ljósmyndari og tískubloggari, er einnig á meðal þeirra sem féllu í árásinni. Hún hafði nýlega trúlofast kærasta sínum. Á bloggsíðu sinni sagðist hún elska að reyna nýja hluti og prófa sig áfram. „... og oftar en ekki set ég augnskuggann á með fingrunum,“ skrifaði hún.

Trudy Jones, 51 árs starfsmaður á dvalarheimili fyrir aldraðra og fjögurra barna móðir, féll einnig í árásinni. Í færslu sem fjölskylda hennar birti á internetinu segir að Jones hafi svo sannarlega ekki átt þessi örlög skilið, hún hafi alltaf hugsað vel um aðra og sett aðra en sjálfa sig í fyrsta sæti. „Hún var hornsteinn fjölskyldunnar og hélt okkur öllum gangandi. Við vitum ekki hvernig við eigum að komast af án hennar,“ sagði í færslunni.

Stephen Mellor, tæplega sextugur verkfræðingur, lést eftir að hann varð fyrir skotum þegar hann skýldi eiginkonu sinni á ströndinni. Konan, sem er 55 ára, liggur á sjúkrahúsi en hún hlaut tvö skotár, annað í handlegg og hinn í fótlegg. Hún sagði í samtali við BBC að þegar maðurinn hóf að skjóta hjúfruðu þau sig saman og sögðu hvort öðru hversu mikið þau elskuðu hvort annað.

Írsku ríkisborgararnir Lorna og Declan Carty voru saman í fríi. Hann gekkst nýverið undir aðgerð á hjarta og var ferðin því kærkomin hvíld fyrir hjónin. Lorna fór ein á ströndina þennan dag og varð fyrir skotum þegar Rezgui réðst á gesti strandarinnar. Hún lést skömmu síðar. 

Hér má lesa nánar um þá sem létu lífið í árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert