Náði strokufanganum einn síns liðs

„Hey, komdu hingað,“ hrópaði lögreglumaðurinn Jay Cook að grunsamlegum manni sem hann sá á hlaupum í aðeins þriggja kílómetra fjarlægð frá landamærum Bandaríkjanna og Kanada í New York-ríki í gær. Maðurinn hunsaði Cook sem kallaði aftur á hann. Þegar hlauparinn sneri sér við gerði Cook sér grein fyrir því að hann horfði á David Sweat, strokufangann sem hafði verið á flótta undan réttvísinni í rúmar þrjár vikur. Samverkamaður Sweats, Richard Matt, var skotinn til bana af lögreglu á föstudaginn en þeir flúðu fangelsið saman.

Lögregluforinginn Joseph D'Amico lýsti því fyrir blaðamönnum í dag hvernig atburðarásin var í gærkvöldi þegar Sweat náðist loksins.

D'Amico lýsti því hvernig Cook, sem var einn á ferð, elti Sweat inn á akur áður en hann skaut hann tvisvar í búkinn. Sweat féll í grasið og var handtekinn eftir að hlúð var að honum. Hann er nú á sjúkrahúsi í Albany í New York.

Einni umfangsmestu leit að strokuföngum í Bandaríkjunum lauk í gær í smábænum Constable sem er í um 65 kílómetra fjarlægð frá fangelsinu. Um 1.500 manns búa í bænum en samkvæmt frétt NBC náðist Sweat á lóðarmörkum mjólkurbús.

„Við heyrðum nokkur skot, síðan fóru lögreglubílarnir að koma,“ lýsti mjólkurbóndinn Verba Bontrager fyrir blaðamanni Buffalo News Post. „Við vissum ekki alveg hvað var í gangi. Eftir skothvellina var mannskapur kominn, ég trúði því ekki hvað þau voru fljót, þrjátíu eða fjörutíu bílar.“

Sweat er 34 ára gamall. Hann er í alvarlegu en stöðugu ástandi samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjóra New York, Andrew Cuomo.

Nú þarf að halda Sweat á lífi til þess að hann geti veitt upplýsingar um flóttann, sem er einn sá ótrúlegasti í manna minnum.

„Ég get aðeins ímyndað mér að hann hafið verið á leið yfir landamærin,“ sagði D'Amico þegar hann var spurður um staðsetningu Sweats þegar hann fannst.

Yfirvöld telja að strokufangarnir hafi notað svartan pipar til þess að deyfa slóð sína en hundar tóku þátt í leit lögreglu að mönnunum. Erfðaefni úr Sweat fannst á piparstauk í kofa þar sem talið er að fangarnir hafi falið sig. Talið er að þeir hafi brotist inn í að minnsta kosti þrjá kofa á flóttanum.

Samkvæmt frétt NBC verður Sweat ákærður fyrir flótta, innbrot og fleiri glæpi. Saksóknarinn Andrew Wylie sagði NBC að hann væri spenntur að ræða við Sweat þegar hann er útskrifaður af sjúkrahúsinu. „Við viljum ræða við hann um hvernig hann slapp og hversu margir tengjast þessu,“ sagði Wylie. „Ég myndi gjarnan vilja heyra hans útgáfu.“

Richard Matt var skotinn til bana af lögreglu á föstudaginn í bænum Malone, um 25 kílómetrum sunnar en Constable. Vitni tilkynnti lögreglu um grunsamlegar mannaferðir eftir að hann varð var við byssugöt í hjólhýsi sínu. Lögreglusveit nálgaðist Matt í kjölfarið sem var vopnaður haglabyssu. Eftir að Matt neitaði að leggja niður vopn sitt var hann skotinn þrisvar í höfuðið.

Ekki er vitað hvort Sweat var nálægt þegar Matt lést. Cuomo kallaði Cook, sem er tveggja barna faðir, „hetju“ á blaðamannafundi í gærkvöldi. Cook er búinn að vera lögreglumaður í 21 ár.

„Martröðinni er loksins lokið,“ sagði hann. „Þetta voru mjög hættulegir menn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert