Vilja ræða áfram við Grikki

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Þýsk stjórnvöld verða áfram reiðubúin til viðræðna við ráðamenn Grikklands að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fyrirhugað er í landinu á sunnudaginn um aðhaldskröfur alþjóðlegra lánadrottna þess í skiptum fyrir frekari lánafyrirgreiðslur. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í dag samkvæmt frétt AFP.

„Ef ríkisstjórn Grikklands biður um viðræður, til dæmis eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, yrði því að sjálfsögðu ekki hafnað,“ sagði Merkel við blaðamenn í dag. Jeroen Dijsselbloem, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna, tók í sama streng. Dyrnar yrðu áfram opnar fyrir Grikki hvað viðræður varðaði. Enn mætti koma í veg fyrir að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið.

„Ég held áfram að segja það að dyrnar eru enn opnar frá okkar sjónarhóli séð þó möguleikarnir og tíminn séu af skornum skammti,“ sagði hann við blaðamenn. Lækkanir hafa orðið í evrópskum kauphöllum í dag vegna ótta við að Grikkir lendi í greiðsluþroti og þurfi jafnvel að yfirgefa evrusvæðið. Þá hefur gengi evrunnar lækkað umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert