Fólk fast í byggingunum

Unnið er að björgunaraðgerðum.
Unnið er að björgunaraðgerðum. AFP

Óttast er að fleiri en 100 hafi látið lífið þegar herflutningavél brotlenti í íbúðahverfi í borginni Medan í Indónesíu. Vélin lenti á tveimur húsum og hóteli og varð alelda. Talið er að allir innanborðs, samtals 113 farþegar og áhöfn, hafi farist.

Búið er að finna a.m.k. 66 lík. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa yfir á vettvangi, en mikinn reykjarmökk leggur frá eldinum. Að sögn fréttaritara BBC í Jakarta er ekkert eftir af vélinni nema brak; eini hluti hennar sem hægt er að bera kennsl á er stélið.

BBC hefur eftir fréttaritaranum, Alice Budisatrijo, að fregnir hafi borist af því að fólk sitji fast inni í byggingunum sem vélin lenti á. Starfsmenn sjúkrahúss í nágrenninu vinna að því að flytja líkamsleifar af vettvangi, en talið er að margir farþeganna hafi verið ættingjar hermanna.

Orsök slyssins liggur ekki fyrir en vitni sagði í samtali við Reuters að eld og reyk hafi lagt frá vélinni áður en hún brotlenti. Hún hafi flogið yfir nokkrum sinnum áður en hún lenti á þaki hótelbyggingarinnar og sprakk.

Vélin var nýtekin á loft þegar atvikið átti sér stað en samkvæmt yfirmanni flughersins, Agus Supriatna, hafði flugmaðurinn leitað heimildar til að snúa við vegna tækniörðugleika áður en vélin brotlenti.

Vélin, af tegundinni Hercules C-130, var smíðuð 1964 en talsmaður hersins sagðist í dag sannfærður um að hún hefði verið í góðu ásigkomulagi. Slysið er hins vegar aðeins það síðasta í röð slysa sem hafa hent flugvélar á vegum indónesíska hersins frá 2009.

Frétt BBC.

Frétt mbl.is: Minnst 45 látnir eftir flugslysið

Frétt mbl.is: Herflugvél hrapaði á íbúðahverfi

Vélin lenti mitt í íbúðahverfi.
Vélin lenti mitt í íbúðahverfi. AFP
Sjúkrahús í nágrenninu hefur unnið að því að flytja líkamsleifar …
Sjúkrahús í nágrenninu hefur unnið að því að flytja líkamsleifar af vettvangi. AFP
Fregnir hafa borist af því að fólk sé fast í …
Fregnir hafa borist af því að fólk sé fast í húsunum sem vélin lenti á. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert