Ræða nýja tillögu Grikkja

AFP

Fjármálaráðherrar evruríkjanna ræða í dag á neyðarfundi nýjasta útspil grískra stjórnvalda í vegna skuldavanda Grikklands. Þett staðfestir Jeroen Dijsselbloem, sem fer fyrir fjármálaráðherrunum, í samtali við fréttveituna AFP.

Fram kemur í fréttinni að fundurinn fari fram símleiðis klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Grísk stjórnvöld fóru fyrr í dag fram á lánafyrirgreiðslu næstu tvö árin á grundvelli björgunarsjóðs Evrópusambandsins. Viðræður um skuldamál Grikklands hafa staðið yfir undanfarna mánuði en til þessa hafa þær ekki skilað árangri. Upp úr viðræðunum slitnaði fyrir helgi og boðaði forsætisráðherra landsins, Alexis Tsipras, í kjölfarið þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði alþjóðlegra lánadrottna Grikkja fyrir frekari lánveitingum.

Grikklandi ber að inna af hendi greiðslu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir miðnætti í kvöld upp á 1,6 milljarð evra. Grískir ráðamenn hafa þegar sagt að af því verði ekki. Óttast er að í kjölfarið lendi Grikkland í greiðsluþroti sem gæti þýtt að landið yrði að yfirgefa evrusvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert