Rezgui var ekki einn á ferð

Seifeddine Rezgui myrti tæplega fjörtíu manns og féll að lokum …
Seifeddine Rezgui myrti tæplega fjörtíu manns og féll að lokum í átökum við lögreglu. AFP

Seifeddine Rezgui, maðurinn sem myrti tæplega fjörutíu manns á ferðamannastað í Túnis á föstudag, var hluti af fimm manna hópi sem hefur verið starfandi síðustu fjögur ár í tengslum við hryðjuverk. Að minnsta kosti tveir úr hópnum hlutu þjálfun og börðust í Sýrlandi.

Samkvæmt frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar dvaldi Rezgui í fjóra mánuði í Líbýu þar sem hann var þjálfaður til að ráðast á íbúa hins vestræna heims.

Skólabróðir Rezguis sagði í samtali við Sky að árásin hefði verið fyrirskipuð af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Hann sagði einnig að Rezgui hefði hlotið þjálfun hjá samtökunum í Líbýu. 

„Ég þekki hópinn sem hann vinnur með, þetta er hópur hryðjuverkamanna,“ segir skólabróðirinn í samtali við Sky. „Þetta eru nokkrir menn sem fara til Sýrlands, koma aftur og fara að læra í sama háskólanum. Svo eru aðrir sem fara og láta lífið í Sýrlandi.“ 

Skólabróðir Rezguis segist vera viss um að hann hafi hlotið þjálfun í Líbýu og hann hafi verið „sá sem sefur“, hryðjuverkamaður sem sagt er að láta lítið fyrir sér fara þangað til hann fær skipun um að ráðast á ákveðið skotmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert