Skuldahlutfallið 118% árið 2030

Svo virðist sem lánadrottnum Grikklands sé fullkunnugt um að skuldir …
Svo virðist sem lánadrottnum Grikklands sé fullkunnugt um að skuldir ríkisins verði seint sjálfbærar ef ekki kemur til skuldaafskrifta. AFP

Samkvæmt gögnum sem Guardian hefur fengið aðgang að verða skuldir gríska ríkisins enn ósjálfbærar árið 2030, jafnvel þótt Grikkir gangi að kröfum lánadrottna sinna um sársaukafullar aðhaldsaðgerðir.

Gögnin, sem voru tekin saman af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, virðast styðja þann málflutning grískra yfirvalda að til þess að koma landinu aftur á réttan kjöl þurfi að grípa til skuldaafskrifta.

Samkvæmt skjölunum er það mat AGS að þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir muni skuldir ríkisins nema 118% af landsframleiðslu árið 2030, en 110% er það viðmið sem AGS metur sjálfbært. Eins og er stendur hlutfallið í 175%.

Í gögnunum kemur fram að „verulegra tilslakana“ sé þörf eigi Grikkir að eiga möguleika á því að komast upp úr skuldadjúpinu, en samkvæmt allra bjartsýnustu vonum, sem miða við 4% hagvöxt næstu fimm ár, munu skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu aðeins minnka í 124% fyrir árið 2022. Er þá gert ráð fyrir að fimm sinnum meira fé skili sér í ríkiskassan með einkavæðingu en líklegasta spáin gerir ráð fyrir.

Gögnin voru meðal þeirra skjala sem lögð voru fram þegar lánadrottnarnir kynntu úrslitatillögur sínar fyrir Grikkjum á föstudag. Það var Suddeutsche Zeitung sem komst yfir gögnin eftir að þau voru send þýskum þingmönnum, en mögulegur samningur milli lánadrottnanna og Grikklands er háður samþykki þýska þingsins.

Ítarlega frétt um gögnin er að finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert