Stór glerpíramídi rís í París

Módel af skýjakljúfnum.
Módel af skýjakljúfnum. AFP

Borgarráðsmenn í París hafa lagt blessun sína yfir fyrirætlanir fasteignarisans Unibail Rodamco um byggingu risavaxins skýjakljúfs í formi glerpíramída, sem óhætt er að segja að muni setja mark sitt á borgina.

Verkefnið er afar umdeilt en þetta mun vera í fyrsta sinn í nær 40 ár sem skýjakljúfur rís í París. Turninn hefur hlotið heitið Tour Triangle.

Ráðgert er að turninn verði 180 metra hár, en hann mun m.a. hýsa 120 herbergja hótel og 70.000 fermetra skrifstofurými. Þá verða jafnframt í turninum menningarmiðstöðvar og daggæsla fyrir börn.

Byggingin var hönnuð af arkitektafyrirtækinu Herzog & de Meuron í Basel, en það kom m.a. að hönnun Tate Modern í Lundúnum og „Hreiður“- leikvangsins sem byggður var fyrir ólympíuleikana í Peking 2008.

Áætlað er að verkefnið muni kosta Unibail Rodamco um 500 milljónir evra, en stefnt er að því að ljúka byggingunni árið 2018. Turninn verður staðsettur í hverfinu Porte de Versailles, þar sem einnig er að finna stórar ráðstefnubyggingar.

Það var Guardian sem sagði frá, en á síðu fjömiðilsins má finna tölvuteiknaða mynd af Tour Triangle í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert