Strokufangarnir ætluðu til Mexíkó

Ríkisstjóri New York Andrew Cuomo ræddi við fjölmiðla í gær.
Ríkisstjóri New York Andrew Cuomo ræddi við fjölmiðla í gær. AFP

Strokufangarnir tveir, sem sluppu úr rammgirtu fangelsi í New York 6. júní síðastliðinn ætluðu til Mexíkó. Mennirnir voru á flótta í um þrjár vikur. Annar þeirra, Richard Matt, féll fyrir hendi lögreglu á föstudaginn en David Sweat náðist á sunnudaginn. Hann var skotinn af lögreglu en lifði skotið af. Hann hefur nú greint fyrir ýmsum atriðum í sambandi við flóttann.

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo sagði frá því í gær að áætlun mannanna hafi verið að flýja til Mexíkó. En þegar að Joyce Mitchell, sem ætlaði að útvega mönnunum bíl hætti við,þurftu þeir að útbúa nýja áætlun og það hratt.

Greint er frá þessu á NBC. 

Mennirnir ákváðu að halda norður til Kanada og náðist Sweat aðeins nokkrum kílómetrum frá landamærunum á sunnudaginn. Hann er nú á sjúkrahúsi í Albany í New York vegna áverka sem hann varð fyrir þegar hann var skotinn af lögreglu. Ástand hans var fyrst um sinn alvarlegt en nú er það stöðugt. Hann hefur getað rætt við lögreglu.

„Hann hefur útvegað okkur upplýsingar sem staðfesta það sem við vissum að hluta til en sýnir einnig hlutina í nýju ljósi,“ sagði Cuomo í samtali við sjónvarpsstöðina WCNY. „Upphaflega planið hjá þeim báðum var að fara til Mexíkó.“

Tveir starfsmenn fangelsisins, Mitchell og Gene Palmer hafa verið handtekin vegna aðildar sinnar að málinu. Sweat hefur þó greint frá því að Palmer hafi ekki haft vitneskju um áætlun mannanna um að flýja. Palmer á að hafa afhent föngunum hamborgarakjöt sem innihélt verkfæri. Mitchell kom verkfærunum fyrir.

Eins og fram hefur komið starfaði Mitchell ásamt föngunum í saumastofu fangelsins. Hún á að hafa átt í óviðeigandi sambandi við fangana, hugsanlega rómantísku. Að sögn Cuomo ætluðu fangarnir að nota bíl Mitchell til þess að komast til Mexíkó en fyrst myrða eiginmann hennar.

„Og þar myndu þau lifa hamingjusöm til æviloka,“ sagði Cuomo. En ekkert varð úr þessum plönum þar sem að Mitchell hætti við að aðstoða fanganna eftir að fyrir utan veggi fangelsisins var komið. Hún skráði sig inn á sjúkrahús sama dag og fangarnir flúðu vegna andlegra veikinda, líklega kvíðakasts.

Cuomo greindi jafnframt frá því að mennirnir hafi ferðast saman þar til fyrir um sex dögum síðan. „Sweat fannst Matt hægja á sér,“ sagði Cuomo. „Nú vitum við að Matt var með blöðrur á fótunum.“

Lögregla fann blóðuga sokka í kofa sem talið er að Matt hafi brotist inn í. Talið er að sokkarnir hafi verið eign Matt sem var þrettán árum eldri en Sweat. Að sögn ríkisstjórans er Sweat yngri og í betra formi en Matt og gat því farið hraðar. 

Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. AFP
Að sögn David Sweat var Joyce Mitchell eini vitorðsmaður strokufanganna.
Að sögn David Sweat var Joyce Mitchell eini vitorðsmaður strokufanganna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert