Táldró og myrti ellilífeyrisþega

Lögmaður konunnar segir að henni líði betur með öldruðu fólki.
Lögmaður konunnar segir að henni líði betur með öldruðu fólki. AFP

Frönsk kona var í gær ákærð fyrir að hafa táldregið og myrt ellilífeyrisþega og eitrað fyrir þrjá aðra á frönsku ríveríunni. Patricia Dagorn, sem er á sextugsaldri, afplánar þegar fimm ára dóm fyrir þjófnað, fjársvik og rán á 88 ára ekkli.

Nýjasta ákæran snýr að brotum sem Dagorn á að hafa framið á árunum 2011 til 2012. Talið er hugsanlegt að brot hennar séu fleiri en málið er enn í rannsókn. Lögmaður konunnar segir hana neita öllum ásökunum.

Hún sé „brothættur“ einstaklingur sem hafi verið komið fyrir á fósturheimili í æsku, segir hann. „Hún segir að sér líði betur með öldruðu fólki,“ sagði lögmaður hennar í samtali við AFP-fréttaveituna.

Tveir karlmenn segja Dagorn hafa reynt að eitra fyrir þá. Annar þeirra kynntist henni í gegnum stefnumótasíðu árið 2012. Adam var þó ekki lengi í Paradís, maðurinn fann valíum í fórum hennar og læknir fann leifar af eitri í líkama hans. „Ég var á leið í gröfina án þess að átta mig á því,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert