„Þau dóu saman við að gera það sem þeim þótti best“

Ferðamaður syrgir fólkið sem lét lífið í árásinni á föstudag.
Ferðamaður syrgir fólkið sem lét lífið í árásinni á föstudag. AFP

Byssumaðurinn sem drap 38 ferðamenn í Túnis var þjálfaður af jihadistum í Líbíu. Þetta er haft eftir stjórnvöldum í Túnis, ásamt því sem forseti landsins sagði öryggissveitir þess ekki hafa verið búnar undir árás af þessu tagi.

Á föstudaginn gekk hinn 23 ára gamli Seifeddine Rezgui berserksgang með Kalashnikov hríðskotabyssu við Riu Imperial Marhaba hótelið í Port El Kantaoui nærri Sousse í Túnis.

Innanríkisráðherra Túnis, Rafik Chelli, sagði við AFP fréttastofuna að Rezgui hafi verið í Líbíu á sama tíma og tveir menn sem stóðu að árás í mars nærri Bardo-safninu, þar sem 21 ferðamaður og einn lögreglumaður létu lífið.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst báðum ódæðisverkunum á hendur sér. „Við höfum staðfest að Rezgui fór ólöglega til Líbíu. Hann var þjálfaður í Sabratha, vestan við Trípólí,“ segir Chelli. „Þeir voru þar á sama tíma. Í Sabtatha eru bara einar búðir sem þjálfa unga Túnismenn,“ segir hann, þó svo ekki sé hægt að staðfesta að þeir hafi hlotið þjálfun sína saman.

Búðunum var stjórnað af Ansar al-Sharia samtökunum. Slaheddine Jourchi, öryggisgreinandi í Túnis, segir þetta sína þá hættu sem Túnis stafar af óöldinni í Líbíu.

Fyrr í dag útvarpaði frönsk útvarpsstöð viðtali við forseta Túnis, Beji Caid Essebsi, sem sagði öryggissveitir landsins hafa verið í viðbragðsstöðu síðan árásirnar voru gerðar á safnið á öðrum svæðum, en ekki hafi verið búist við að ráðist yrði á ferðamenn á sólarströnd.

„Það er rétt að atvikið kom okkur á óvart. Við gerðum ráðstafanir í tilefni af Ramadan, en við bjuggumst ekki við að þurfa að gæta sólarstranda sérstaklega,“ sagði Essebsi í viðtalinu við Europe 1.

Breskt par „dó saman“

Eftir árásina hafa öfgamenn hótað frekara ofbeldi. Þeir notast meðal annars við merkið #IWillCometoTunisiaThisSummer á Twitter, sem má lauslega þýða sem „ÉgÆtlaTilTúnisÍSumar“.

Fjöldi vitna sagði að árásin á ströndinni hafi staðið yfir í hálftíma áður en árásarmaðurinn var skotinn til bana. Yfirvöld segjast hins vegar hafa verið komin á staðinn á örfáum mínútum.

Búist er við að um 1.000 vopnaðir verðir verði kallaðir til til að tryggja öryggi ferðamanna. Jourchi varar fólk hins vegar við. „Þrátt fyrir aðgerðir yfirvalda til að auka öryggi, þá eru þau að glíma við samtök sem geta komið fólki yfir landamæri til að koma því í þjálfunarbúðir í Líbíu, þjálfa þá í að bera þau vopn sem þau kjósa og koma þeim aftur til Túnis þegar það hentar þeim.“

Frá því á föstudag hafa þúsundir ferðamanna flogið til síns heima, þar á meðal að minnsta kosti 4.000 bretar, en flestir hinna látnu voru breskir ríkisborgarar. Að minnsta kosti 1.900 í viðbót hafa ákveðið að yfirgefa landið fyrr en áætlað var.

Yfirvöld í Túnis hafa nú borið kennsl á 33 hinna látnu, en þeirra á meðal eru 25 bretar, en bresk yfirvöld óttast að sú tala eigi eftir að hækka í að minnsta kosti 30.

Talskona Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, sagði við blaðamenn að fyrstu lík breskra fórnarlamba yrðu flutt til landsins á morgun.

Börn Janet og John Stocker, sem voru 63 og 74 ára þegar þau voru drepin á ströndinni á föstudag, sendu frá sér yfirlýsingu í dag.

„Þau voru bæði ung í anda og nutu alls þess sem lífið bauð upp á, og nutu þess sérstaklega að ferðast á nýjar slóðir og skoða nýja menningarheima. Þegar þau dóu saman þá voru þau að gera það sem þeim þótti best; að liggja hlið við hlið í sólinni,“ segir í yfirlýsingunni.

Árásarmaðurinn Rezgui.
Árásarmaðurinn Rezgui. AFP
Bresk fjölskylda sem varð vitni að árásinni á föstudag leggur …
Bresk fjölskylda sem varð vitni að árásinni á föstudag leggur blóm á ströndina þar sem árásin varð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert