13 og 14 ára ákærðar fyrir morð

Leigusali konunnar fann lík hennar. Mynd úr safni.
Leigusali konunnar fann lík hennar. Mynd úr safni. AFP

Réttarhöld yfir tveimur unglingsstúlkum sem eru ákærðar fyrir morð hófust í vikunni í Bretlandi. Stúlkurnar voru 13 og 14 ára gamlar þegar morðið var framið.

Fórnarlamb stúlknanna var hin 39 ára gamla Angela Wrightson. Hún fannst hálfnakin á heimili sínu í Hartlepool í desember á síðasta ári með rúmlega hundrað áverka.

Konan var látin þegar hún fannst en hún hafði verið lamin m.a. með tréspýtu, sjónvarpi, prentara og sófaborði.

„Leigusali Angelu Wrightson fann hana. Líkið var í sófa, hún var nakin fyrir neðan mitti. Það voru rúmlega hundrað áverkar á henni. Sönnunargögn á vettvangi gáfu til kynna að hún hafi verið lamin á tólf mismunandi stöðum inni í sama herberginu,“ sagði saksóknari í málinu Nicholas Campell við réttarhöldin.

Fyrir utan tréspýtuna, sjónvarpið, prentarann og sófaborðið notuðu stúlkurnar jafnframt skóflu að sögn Campell. „Síðan fundust minni hlutir eins og ketill og panna sem voru notuð ásamt glervasa og öðrum skrautmunum.“

Stúlkurnar eru nú fjórtán og fimmtán ára gamlar. Þær voru í umsjá barnaverndaryfirvalda þegar árásin var framin. Þær neita sök.

Frétt Sky News um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert