Aðeins guð getur fyrirgefið

Oskar Gröning í dómsalnum í dag.
Oskar Gröning í dómsalnum í dag. AFP

Oskar Gröning, 94 ára, hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa átt þátt í helförinni þegar hann starfaði sem SS vörður í útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Hann hefur verið sakaður um að hafa átt aðild að morði 300.000 ungverskra gyðinga.

Gröning sagðist ekki hafa farið fram á fyrirgefningu, hann verðskuldaði ekki að bera fram slíka ósk. Það væri aðeins á færi guðs að veita slíka fyrirgefningu.

„Ég var meðvitaður um atburðina sem áttu sér stað í Auschwitz, fjöldamorðin. En mörg þeirra smáatriða sem hér hafa komið fram var mér ekki kunnugt um,“ sagði hann í dómsalnum í Luneburg í norðurhluta Þýskalands, í gegnum lögmann sinn.

Gröning hefur verið kallaður „bókhaldarinn í Auschwitz“ en hann hafði það hlutverk að fara í gegnum farangur þeirra sem fluttir voru í búðirnar og telja þá fjármuni sem fundust í fatnaði og töskum.

Hann sagði að vitnisburður eftirlifenda og ættingja þeirra sem voru myrtir í fangabúðunum hefðu haft djúpstæð áhrif á hann.

„Það sem átti sér stað í Auschwitz hefur verið fært fyrir sjónir mínar á ný. Þjáning brottfluttra í lestunum, valferlið og í kjölfarið útrýming meirihluta fólksins, hefur verið rifjuð upp fyrir mér með skýrasta hætti.. og að auki hræðilegur aðbúnaður þeirra sem voru ekki myrtir samstundis.“

Gröning ítrekaði að hann hefði aðeins tekið þátt í valferlinu svokallaða örfáum sinnum; mestum tíma hefði hann varið á skrifstofu að telja peninga. Einnig að hann hefði ítrekað óskað eftir flutningi og að hann hefði ekki myrt nokkurn mann.

Á hæla 15 mínútna yfirlýsingar Gröning fylgdi vitnisburður Irene Fogel Weiss, 84 ára, sem lýsti því í smáatriðum hvernig fjölskyldu hennar var sundrað við komuna til Auschwitz í maí 1944. Báðir foreldrar hennar, fjögur systkini og 13 frændsystkini voru myrt í búðunum.

„Hann [Gröning] hefur sagt að hann líti ekki á sjálfan sig sem geranda, heldur lítið tannhjól í vélinni. En ef hann sæti hér í dag í SS-einkennisklæðnaði sínum myndi ég skjálfa og allur sá hryllingur sem ég upplifði 13 ára gömul rifjast upp fyrir mér,“ sagði Weiss.

Ítarlega frétt um það sem kom fram í dómsalnum í dag er að finna hjá Guardian.

Frétt mbl.is: „Ég bið um fyrirgefningu“

Frétt mbl.is: Vilja að hann játi syndir sínar

Frétt mbl.is: „Ég var þar“

Irene Weiss sagði frá því í dag hvernig foreldrar hennar, …
Irene Weiss sagði frá því í dag hvernig foreldrar hennar, fjögur systkini og 13 frændsystkini voru myrt í Auschwitz. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert