Bandaríkin og Kúba opna sendiráð

Raul Castro, forseti Kúbu, ræðir við Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Raul Castro, forseti Kúbu, ræðir við Barack Obama Bandaríkjaforseta. AFP

Bandaríkin og Kúba hafa ákveðið að opna sendiráð hvort í annars höfuðborg. Löndin náðu samningum um að taka upp formlegt stjórnmálasamband að nýju fyrr á árinu sem markaði mikil tímamót í samskiptum landanna, sem hafa ekki verið í stjórnmálasambandi frá árinu 1961.

Búist er við að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sendi frá sér formlega yfirlýsingu frá Hvíta húsinu klukkan 15 í dag að íslenskum tíma. Ekki er ljóst hvenær sendiráðin munu opna, en gert er ráð fyrir að það verði um miðjan júlí.

Bandarísk stjórnvöld slitu stjórnmálasambandi við Kúbu og lokuðu sendiráði sínu í Havana í janúar 1961, tveimur árum eftir að þau viðurkenndu stjórn Fidels Castros. Samningar náðust þó um það á síðasta ári að taka upp formlegt stjórnmálasamband að nýju, og hittust leiðtogar landanna á sögulegum fundi í apríl sl.

Þetta þykir mikill sigur fyrir Obama, sem hefur beitt sér fyrir bættum samskiptum ríkjanna tveggja í sinni tíð sem forseti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert