Blair þrýsti á Clinton um fund

Cheire Blair er lögmaður og eiginkona fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony …
Cheire Blair er lögmaður og eiginkona fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair. AFP

Cherie Blair, eiginkona Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, þrýsti ítrekað á Hillary Clinton að eiga fund með óformlegum en áhrifamiklum sendifulltrúa Katar, þegar Clinton var utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Þetta sýna tölvupóstsamskipti milli kvennanna, en Blair sendi Clinton 19 tölvupósta um málið yfir fjóra mánuði árið 2009. Tölvupóstarnir þykja vekja spurningar um lobbíisma allra viðkomandi.

„Sheika Moser [Sheika Mozah bint Nasser al-Missned] hefur komið að máli við mig persónulega og sagt að þau séu áfram um að koma samskiptum sínum við Bandaríkin á jákvæðari grunn og hún var að vonast eftir „kona við konu“ einkafundi með þér,“ segir Blair í fyrsta tölvupósti sínum til Clinton. Póstarnir benda til þess að Clinton hafi á endanum orðið við beiðninni.

Utanríkisráðuneytið afhenti tölvupóstana eftir lagalega baráttu um endurheimt tölvupósta sem Clinton geymdi á netþjóni í einkaeigu.

Forsetaframboð Clinton hefur vakið spurningar um framlög Katar í sjóð í eigu Clinton-hjónanna, sem settur var á fót eftir að Bill Clinton yfirgaf Hvíta húsið. Hillary hefur neitað því að framlög erlendra aðila hafi haft nokkur áhrif á störf sín sem utanríkisráðherra en sjóðurinn hefur verið sakaður um að hafa brotið gegn samkomulagi við Obama-stjórnina um að hætta að taka við fjárframlögum erlendis frá á meðan Clinton sæti í embætti.

Fjáröflun Blair-hjónanna hefur sömuleiðis vakið athygli í kjölfar þess að þau fluttu úr Downing-stræti.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert