Lönd heimsins búi sig undir hita

Þessa dagana er víða mjög heitt í Evrópu og í …
Þessa dagana er víða mjög heitt í Evrópu og í Asíu. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hvetja lönd heimsins til að útbúa viðbragðskerfi til að bregðast við hættu sem stafar af hitabylgjum. Hitabylgjur verða sífellt tíðari, ákafari og hættulegri vegna loftlagsbreytinga og þarf að fylgjast með því hvaða áhrif þær hafa á heilsu jarðarbúa.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) hafa lagst á eitt við að útbúa leiðbeiningar fyrir sérfræðinga og yfirvöld um hvernig á að lágmarka hættu á heilsutapi þegar hitabylgjur ríða yfir, líkt og þær sem gera nú mörgum íbúum Asíu og Evrópu lífið leitt.

Leiðbeiningar sem þessar eru þegar til í einhverjum löndum, til að mynda í Frakklandi, sem kynnti til sögunnar viðbragðskerfi eftir að landið varð illa úti í hitabylgju sem reið yfir Evrópu sumarið 2003. Tugir þúsunda létu lífið í álfunni.

Í öðrum löndum, líkt og í Pakistan, eru leiðbeiningar sem þessar ekki til. Þar í landi hafa fleiri en 1.200 manns látið lífið að undanförnu vegna mikils hita. Þá létu fleiri en tvö þúsund manns lífið í Indlandi fyrr í sumar vegna hitabylgju. Íbúar landanna hafa vissulega aðgang að veðurspá en víðast hvar er ekki farið nánar út þá hættu sem getur stafað af hitanum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og alþjóðaveðurfræðistofnunin hvetja lönd, jafnvel þau sem glíma að jafnaði ekki við hitabylgjur, að vera vel undirbúin. Loftslagsbreytingar geti gert það að verkum að hitabylgjur skjóti upp kollinum þar sem þær hafa ekki látið verið tíðar áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert