Segir af sér eftir grun um fíkniefnabrot

Julie Hamp.
Julie Hamp. AFP

Julie Hamp, æðsti kvenkyns stjórnandi hjá bílaframleiðandanum Toyota, hefur sagt af sér eftir að hafa verið handtekin vegna gruns um fíkniefnabrot.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að uppsögnin hafi verið staðfest í ljósi þeirra óþæginda sem atburðir síðustu vikna hafi valdið hagsmunaaðilum og hluthöfum félagsins.

Hamp, sem nýlega fékk stöðu sem stjórnandi allra alþjóðlegra almannatengsla hjá þessum stærsta bílaframleiðanda heims, var handtekin í síðasta mánuði og úrskurðuð í gæsluvarðhald fyrir að hafa komið með lyf inn í landið án leyfis. Hún er enn í gæsluvarðhaldi.

Hamp var handtekin á hóteli í Tókýó eftir að pakki sem var stílaður á hana og innihélt verkjalyfið oxycodone var sendur á flugvöllinn í Narita. Oxycodone er lyfseðilsskylt lyf en ólöglegt er að flytja það á milli landa nema með leyfi frá yfirvöldum, og getur refsing verið allt að 10 ára fangelsi.

Hin 55 ára gamla Hamp sagði saksóknurum að hún hefði látið senda þessar sterku verkjapillur frá Bandaríkjunum til að minnka sársauka sem hún er með í hnjánum. Hún segist ekki hafa staðið í trú um það að hún hefði smyglað inn eiturlyfjum þegar hún var handtekin.

Pakkinn kom til landsins þann 11. júní sl. og á honum stóð „hálsmen“. Hann innihélt nokkur lítil box sem innihéldu skartgripi og nokkrar pillur hvert. Telur lögreglan þetta hafa verið tilraun til að fela lyfið. Samkvæmt skýrslum sendi faðir hennar henni pakkann.

Oxycodone, sem getur verið ávanabindandi, er flokkað sem fíkniefni í Japan en getur verið skrifað upp á af læknum til að linna sársauka.

„Við trúum að það muni koma í ljós að Hamp ætlaði sér ekki að brjóta lög. Hún er kær samstarfsfélagi minn sem ég treysti,“ sagði Akio Toyoda, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hamp er fyrsti stjórnandi fyrirtækisins sem ekki er japanskur til að vinna í höfuðstöðvum Toyota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert