Stjórnvöld í Kína herða tökin

Maður á hjóli við bakka árinnar Songhua í Heilongjiang.
Maður á hjóli við bakka árinnar Songhua í Heilongjiang. AFP

Kínverski löggjafinn hefur samþykkt yfirgripsmikla og umdeilda löggjöf sem gefur stjórnvöldum aukið vald til að hafa áhrif í líf kínverskra borgara. Samkvæmt löggjöfinni nær þjóðaröryggi nú til fjölmargra málaflokka, allt frá netöryggi til fjármálastarfsemi og trúmála.

Að sögn ríkisfjölmiðla er löggjöfinni ætlað að „standa vörð um grundvallarahagsmuni fólksins“. Hún er þáttur í stefnumótun forsetans Xi Jinping sem hefur verið gagnrýnd af erlendum ríkjum, fyrirtækjum og mannréttindahópum.

Í frétt BBC kemur fram að orðalag löggjafarinnar sé nokkuð óskýrt en hún heimilar stjórnvöldum að grípa til „allra nauðsynlegra ráðstafana“ til að vernda fullveldi Kína. Löggjöfin felur í sér skref í átt til þess að gera lykil innviði og upplýsingakerfi „örugg og stýranleg“.

Erlend tæknifyrirtæki með starfsemi í Kína óttast að löggjöfin geri stjórnvöldum kleift að fara fram að þau afhendi viðkvæm gögn. Zhang Xuezhong, fyrrverandi prófessor í stjórnmála- og lögfræði við East China University, segir hins vegar um hugmyndafræðilega yfirlýsingu að ræða, sem opni á aukna ritskoðun og aðgerðir gegn andófsmönnum.

Fréttastofan Xinhua sagði frá því að samkvæmt talsmanni stjórnvalda væri löggjöfin nauðsynleg ráðstöfun í ljósi þess að alvarlegar aðstæður væru að skapast varðandi þjóðaröryggi Kína. Hún sagði að Kína þyrfti að verja fullveldi sitt og hagsmuni, en jafnframt varðveita pólitískan og samfélagslegan stöðugleika.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert