„Nei“ skilar ekki betri niðurstöðu

Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands.
Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands. AFP

Það er engin töfralausn á skuldavanda Grikkja að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudaginn og það er einfaldlega rangt hjá forsætisráðherra Grikkja, Alexis Tsipras, að slíkt muni leiða til betri samninga. Þetta segir Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands og formaður hóps fjármálaráðherra á evrusvæðinu.

Dijsselbloem sagði þetta í dag fyrir þingnefnd í Hollandi, en hann taldi að ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði neikvæð, þá myndi vera erfiðara að brúa bilið milli kröfuhafa og stjórnvalda í Aþenu. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

„Gríska ríkisstjórnin er að hafna öllu með þeim rökum að ef þú segir nei verði staðan betri eða samningspakkinn vinalegri. Slík afstaða er einfaldlega röng,“ sagði Dijsselbloem.

Bankar voru áfram lokaðir í dag eftir að Grikkland greiddi ekki afborgun af neyðarláni sem ríkið hafði fengið frá evrópska seðlabankanum. Hámark er á úttektum úr hraðbönkum, 60 evrur á dag. Ellilífeyrisþegar sem ekki eiga hraðbankakort geta þó farið einu sinni í viku og sótt 120 evrur í nokkrum útibúum sem aðeins leyfa þessar sérstöku úttektir.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert