Stórbruni í Kaupmannahöfn

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn.

Óttast er að gamalt hús í Kaupmannahöfn muni hrynja eftir að kviknaði í því í nótt. Mikill eldur braust út um klukkan 5 að dönskum tíma og voru nærliggjandi hús rýmd. Eldurinn logar enn en slökkviliðið hefur nú náð tökum á eldinum.

Eldurinn kom upp í gamla tónlistarháskólanum í miðborg Kaupmannahafnar á Adelgade. „Ákveðið hefur verið að hefja niðurrif á húsinu til þess að koma í veg fyrir að eldurinn breiðist út í nærliggjandi hús,“ segir yfirslökkviliðsmaðurinn á staðnum í samtali við Berlingske Tidende.

Verið var að vinna að endurbótum á húsinu þegar eldurinn kom upp. „Við höfum náð tökum á eldinum en við erum í vandræðum með einn gafl hússins. Það er byggingarfulltrúi á leiðinni sem ætlar að skoða gaflinn,“ bætir slökkviliðsmaðurinn við.

Um 45 slökkviliðsmenn eru að störfum þessa stundina og þótt þeir hafi náð tökum á eldinum þurfa þeir að hafa sig alla við til þess að halda honum í skefjum. 

Lögreglan í Kaupmannahöfn varar fólk við að vera á ferð um svæðið og er búið að setja upp lokanir í nærliggjandi götum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert