600 kg af kókaíni á snekkju

Mennirnir sigldu á snekkjunni yfir Atlantshafið frá Brasilíu til Spánar.
Mennirnir sigldu á snekkjunni yfir Atlantshafið frá Brasilíu til Spánar. Mynd/Wikipedia

Austurrískir feðgar hafa nú verið handteknir, grunaðir um að hafa smyglað 600 kg af kókaíni frá Brasilíu til Spánar. Sigldu þeir þvert yfir Atlantshafið á snekkju og höfðu komið kókaíninu fyrir undir þiljum snekkjunnar.

Faðirinn sat í fangelsi í Króatíu á árum áður. Komst hann þar í kynni við meðlim í suðuramerískum eiturlyfjahring. Þegar hann losnaði úr fangelsi hélt hann til Brasilíu ásamt syni sínum. Þeir sigldu svo til Spánar með 600 kg af kókaíni innanborðs og við komuna fengu þeir greiddar 250 þúsund evrur fyrir eða um 40 milljónir króna.

Þeir vissu hins vegar ekki að lögreglan hafði verið að fylgjast með þeim allan tímann. Árið 2013 hrapaði nefnilega flugvél sem notuð var til þess að flytja kókaín frá Brasilíu til annarra landa í Suður-Ameríku. Flugmaðurinn var yfirheyrður og ljóstraði upp um stóran glæpahring sem hann vann fyrir. 

Á grundvelli þeirra upplýsinga fór lögreglan að fylgjast með ferðum feðganna yfir hafið og voru þeir í gær handteknir í heimalandi sínu Austurríki. Þegar þeir voru handteknir voru þeir í óðaönn að skipuleggja aðra ferð yfir hafið í sama tilgangi. Í sömu lögregluaðgerð hafa um 30 manns verið handteknir fyrir fíkniefnasmygl og lagt hefur verið hald á gríðarlegt magn af heróíni og kókaíni auk ólöglegra vopna. 

Sjá frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert