„Ég mun standa við orð mín“

Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. AFP

„Ég lofaði þér að ég myndi sjá þig hinum megin við fangelsisvegginn,“ skrifaði Richard Matt í bréfi til dóttur sinnar, nokkrum dögum áður en hann og David Sweat sluppu úr fangelsi í síðasta mánuði.

Dóttir Matts fékk bréfið þremur dögum eftir að faðir hennar slapp úr fangelsinu. Hann og Sweat voru á flótta í um þrjár vikur eins og frægt er orðið.

Bréfið er þó ekki talið gefa til kynna að dóttir Matt hafi vitað að faðir hennar hafi ætlað að flýja fangelsið. Samkvæmt frétt CNN hefur hún aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins.

„Ég mun standa við orð mín,“ skrifaði Matt jafnframt í bréfið.

En hann náði ekki að hitta dóttur sína og var skotinn til bana af lögreglu eftir að hann miðaði haglabyssu á lögreglumann. Lögreglumaður hafði fundið Matt liggjandi bak við fallið tré. Þegar Matt neitaði að fara eftir skipunum lögreglu brutust út átök.

Lík hans hefur nú verið flutt til útfararstofu í heimabæ hans, Tonawanda í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert