Eru skotárásir smitandi?

Lögregla á vettvangi skotárásar.
Lögregla á vettvangi skotárásar. AFP

Skotárásir í Bandaríkjunum gætu verið smitandi. Niðurstaða rannsóknar á vegum teymis frá Háskólanum í Arizona var sú að ein árás þar sem fjöldi fólks er myrtur gæti orðið til þess að önnur fylgdi í kjölfarið. AFP greinir frá en rannsóknin var birt í fræðiritinu PLOS ONE.

Vísindamenn rannsökuðu gögn frá 1998 fram til 2013 um skotárásir í skólum og hópmorð í Bandaríkjunum. Niðurstaðan varð sú að árásir þar sem fjórir eða fleiri létust leiddu til tímabils þar sem „smithætta“ skapaðist sem entist í að meðaltali 13 daga. Um 20 til 30 prósent slíkra árása virðast eiga sér stað vegna smits.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt að sjálfsmorð geta virkað smitandi á ungt fólk og þá sérstaklega þegar lýsingar á aðferðafræði sjálfsmorðsins komast í umferð.

Aðalhöfundur rannsóknarinnar, Sherry Towers, segist hafa fengið áhuga á efninu í fyrra þegar hún var á leið á fund með fræðimönnum við Purdue-háskóla á sama tíma og skotárás átti sér þar stað en þá lést nemandi vegna hnífstungu.

„Ég áttaði mig á að það hefðu verið þrjár aðrar skólaskotárásir í fréttunum í vikunni á undan og velti fyrir mér hvort þetta væri tölfræðileg tilviljun eða hvort fjölmiðlaumfjöllun um þessa atburði gæti komið af stað ómeðvitaðri mótun hugmynda hjá berskjölduðu fólki í stuttan tíma eftir hvern viðburð,“ segir Towers.

Hópmorð með skotvopnum eiga sér stað á tveggja vikna fresti í Bandaríkjunum og skotárásir í skólum eiga sér stað um einu sinni í mánuði. Þau ríki þar sem skotvopnaeign er algengust meðal almennings eru mun líklegri til að vera vettvangur hópmorða og skotárása samkvæmt rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert