Urðu heimilislaus í brúðkaupsferðinni

Hjónin urðu heimilislaus í New York vegna gríska efnahagsástandsins.
Hjónin urðu heimilislaus í New York vegna gríska efnahagsástandsins. AFP

Draumabrúðkaupsferð grísku hjónanna Valasia Limnioti og Konstantinos Patronis breyttist fljótlega í martröð á dögunum þegar að lokað var fyrir kredit- og debetkort þeirra í kjölfar þess að grískum bönkum var lokað. Hjónin urðu skyndilega allslaus og heimilislaus í New York borg eftir þriggja vikna ferðalag.

„Við vorum svöng, og ég grét í tvo daga,“ sagði Limnoti í samtali við NBC. „Ég var heimilislaus í New York.“

Hjónin slepptu nokkrum máltíðum áður en þau eyddu síðustu Bandaríkjadölunum í máltíð á McDonalds. En ókunnugir aðilar frá tveimur grískum rétttrúnaðarkirkjum í Queens komu hjónunum til bjargar og gáfu þeim peninga til þess að lifa af þar til þau flugu aftur til Grikklands í dag.

Limnioti og Patronis gengu í hjónaband 6. júní í Grikklandi. Í kjölfarið héldu þau í brúðkaupsferðina sem þau höfðu safnað fyrir í heilt ár. Fyrir ferðina fengu þau sér Visa kreditkort og debetkort. Í Grikklandi nota þau yfirleitt reiðufé en þeim var ráðlagt að vera með kort í ferðinni.

Allt var í góðu lagi, þar til í New York. Hótel sem þau gistu á bað þau um að greiða 45 bandaríkjadali (um 6.000 krónur) í aukagjald. Það var þá sem kortin hættu að virka og hjónin þurftu að nota reiðufé.

Innan nokkurra daga kláraðist það og „við gátum ekki tekið út peninga, ekkert,“ sagði Limnioti.

Á þriðjudaginn höfðu þau samband við gríska erkibiskupsdæmið í Bandaríkjunum og var þeim bent á að hafa samband við grísku kirkjurnar í Queens. Þær buðu þeim um 350 bandaríkjadali (46.000 krónur).

„Ég sagði, „Ekki hafa áhyggjur, það er útaf svona hlutum sem við erum hér.“,“ sagði presturinn Vasilios Louros sem starfar í kirkju heilags Demetrios í Queens. „Þetta er kirkja Krists og við hjálpum alltaf fólki.“

Peningarnir voru teknir útaf bankareikningi kirkjunnar. Þar að auki fengu hjónin ótilgreinda upphæð frá grískum blaðamanni sem býr í New York en hann er frá sömu borg og hjónin, Volos.

Að sögn Limnioti eru fjölmargir aðrir Grikkir í ferðalögum í sömu stöðu og þau. Sumir eru til dæmis á sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og geta nú ekki greitt sjúkrahúsreikninga. Hún sagðist vilja tjá sig um stöðu hennar og eiginmannsins „því við Grikkir erum stolt þjóð og ég vil að heimurinn viti að við erum ekki í þessar stöðu vegna þess að við erum löt eða gerðum eitthvað rangt.“

En því miður verða fjárhagserfiðleikar þeirra ekki búnir þegar þau koma heim til Grikklands. Bankar eru lokaðir og gríska þjóðin sér fram á mikil fjárhagsvandræði.

Á sunnudaginn kemur í ljós hvort að Grikkir gangi að skil­mál­um lána­drottna rík­is­ins í en kosið verður um það í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Limnioti er 36 ára gömul. Hún er atvinnulaus en lítið fyrirtæki sem hún vann fyrir fór á hausinn. Eiginmaður hennar er enn með vinnu en hann starfar sem þyrluvirki fyrir gríska herinn.

En nú er brúðkaupsferðin búin og óvissan er mikil.

„Það eru aðeins þrír hlutir sem bjarga okkur núna, fjölskyldur okkar, vinir okkar og Guð,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert