„Nei“ mun ekki styrkja stöðu Grikkja

Valdis Dombrovskis, vara­for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins.
Valdis Dombrovskis, vara­for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. AFP

Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi verður „nei“ mun það ekki styrkja stöðu landsins í viðræðum við alþjóðlega lánardrottna eins og ríkisstjórnin hefur haldið fram. Þetta segir Valdis Dombrovskis, vara­for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins.

„Það væri rangt að halda því fram að „nei“ myndi styrkja samningsstöðu Grikkja. Hið gagnstæða er rétt,“ sagði Dom­brovskis, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Lettlands, í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag.

Þar sagði hann jafnframt að staða Grikklands væri mun verri en hún var fyrir viku, í kjölfar ákvörðunar Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Grikkir ættu að samþykkja lánaskilmála Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Dom­brovskis hefur áður sagst vera „viss um að efna­hags- og mynt­banda­lag Evr­ópu­sam­bands­ins kom­ist klakk­laust í gegn­um þetta“ og kveðst telja að sam­komu­lag náist við Grikki fyr­ir 20. júlí þegar þeir eiga að greiða næstu af­borg­un af láni frá Evr­ópu­sam­band­inu. Þá á Grikk­land að greiða Evr­ópska seðlabank­an­um 3,46 millj­arða evra (550 millj­arða króna).

Þá sagði Tsipras í samtali við breska ríkisútvarpið í gær að „100 pró­sent lík­ur“ væru á því að sam­komu­lag næðist við alþjóðlega lána­rdrottna rík­is­ins eft­ir þjóðar­at­kvæðagreiðsluna á sunnu­dag. Hann hefur þó gefið í skyn að hann muni mögu­lega segja af sér ef niðurstaða kosn­ing­anna verður „já“ en hef­ur einnig sagt að hann vilji fram­fylgja vilja þjóðar­inn­ar, jafn­vel þótt hann gangi gegn því sem ráðherr­ann hef­ur bar­ist fyr­ir.

Skoðanakann­an­ir hafa ekki gefið af­drátt­ar­lausa vís­bend­ingu um úr­slit­in en ein könn­un sem lekið var í dag benti til þess að 44,8% hygðust kjósa já en 43,4% nei. Gera má því ráð fyr­ir jöfn­um slag, og hef­ur þegar verið efnt til kosn­inga­vöku hjá báðum pól­um.

Grikk­land varð á þriðju­dag fyrsta þróaða ríkið sem stend­ur ekki skil á skuld­bind­ing­um sín­um við Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðinn (AGS), þegar rík­is­sjóður Grikk­lands greiddi ekki einn og hálf­an millj­arð evra, sem Grikk­land átti að greiða.

Í síðustu viku slitnaði upp úr samn­ingaviðræðum grískra stjórn­valda við lán­ar­drottn­ana eft­ir út­spil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar. Í kjöl­farið fóru að mynd­ast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa marg­ir millj­arðar evra verið tekn­ir út úr hraðbönk­um og bönk­um í land­inu á und­an­förn­um vik­um. 

Þá ákvað rík­is­stjórn Grikk­lands að bank­ar þar í landi yrðu lokaðir alla vik­una, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyr­ir end­an­legt hrun í gríska efna­hags­kerf­inu. Ákvörðunin kom í kjöl­far þess að bankaráð Evr­ópska seðlabank­ans til­kynnti um helg­ina að neyðarlausa­fjáraðstoð, sem grísku bank­arn­ir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki auk­in. Óviss­an olli einnig greiðslu­falli.

Þá hafa fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna gefið út að frek­ari viðræður um skulda­vanda Grikk­lands muni ekki fara fram fyrr en að afstaðinni þjóðar­at­kvæðagreiðslunni.

Sjá einnig: Evr­ópa bíður átekta - sam­an­tekt

Nei herferðina má sjá um alla Aþenu.
Nei herferðina má sjá um alla Aþenu. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert