Refur hélt fólki í gíslingu

Einn þeirra sem var inni í klúbbhúsinu tók þessa mynd …
Einn þeirra sem var inni í klúbbhúsinu tók þessa mynd af refnum út um gluggann.

Grimmur refur hélt átta manns í gíslingu inni í íþróttaklúbbi í Cambridge-skíri í þrjár klukkustundir. Refurinn sat um húsið svo fólkið komst ekki út á bílastæðið.

Í frétt BBC um málið segir að refurinn hafi birst á bílastæðinu er fólkið var að yfirgefa íþróttaklúbbinn. Refurinn beit eina konu og karlmaður datt af reiðhjóli sínu er refurinn elti hann. Þá elti refurinn einn mann að bíl sínum.

Formaður klúbbsins segist aldrei hafa lent í öðru eins. „Ekkert okkar komst út. Við reyndum að fara út um hliðardyr en refurinn heyrði í okkur og kom hlaupandi,“ segir formaðurinn, Bruce Staines.

Kona sem reyndi að villa um fyrir refnum með því að gefa honum að éta var bitin.

Fólkið hafðist því við í klúbbhúsinu í þrjár klukkustundir og fylgdist með ferðum refsins á eftirlitsmyndavélum. Hringt var í meindýraeyði en er hann kom á staðinn kom refurinn á hlaupum svo hann varð að flýja inn í bíl sinn. 

Refurinn náðist þó að lokum og var aflífaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert