„Sírenur eyðileggingarinnar“

Lífeyrisþegi grætur á meðan hann bíður þess að bankaútibú opni. …
Lífeyrisþegi grætur á meðan hann bíður þess að bankaútibú opni. Raðir hafa myndast fyrir utan banka sl. daga, sem afgreiða aðeins þá sem ekki notast við greiðslukort. AFP

Varnarmálaráðherra Grikklands hefur vakið umtal í dag með ummælum um að hlutverk hersins einskorðist ekki við að verja landamærin heldur einnig að tryggja stöðugleika innanlands.

Að sögn fréttaritara Guardian í Aþenu spyrja menn sig nú að því hvað ráðherrann, Panos Kammenos, hafi átt við en margir Grikkir muna enn þegar herstjórnin gerði valdarán árið 1967.

„Orðræða af þessu tagi er hættuleg lýðræðinu,“ sagði Fofi Genimmatas, leiðtogi Pasok. „Þetta er bein ógn gegn réttindum og frelsi grísku þjóðarinnar og hvers borgara fyrir sig.“

Mótmælendur úr „nei“ fylkingunni láta reiði sína bitna á óeirðarlögreglu.
Mótmælendur úr „nei“ fylkingunni láta reiði sína bitna á óeirðarlögreglu. AFP

Borgarstjóri Aþenu lýsti einnig óánægju sinni með ummælin. „Hvað er herramaðurinn að reyna að segja? Að hann undirbúi valdarán?,“ spurði hann. „Og ef hann er að segja að herinn sé reiðubúinn til að grípa inn í ef kemur til innri óstöðugleika - hvað þýðir það?“

Að því er kemur fram hjá Guardian hafa menn leitt líkur að því að með ummælum sínum hafi Kammenos viljað senda þau skilaboð að stjórnvöld hefðu fullkomna stjórn á hernum.

Knýr á um að farið verði eftir niðurstöðum AGS

Stöðugleikasjóður Evrópu (EFSF), sem er stærsti lánveitandi Grikkja, hefur ákveðið að fara ekki fram á umsvifalausa endurgreiðslu lána í ljósi ákvörðunar grískra stjórnvalda að standa ekki skil á 1,5 milljarða evra greiðslu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í vikunni.

Sjóðurinn segir þó ljóst að um greiðslufall hafi verið að ræða og að hann fylgist náið með þróun mála. Þá ítrekar sjóðurinn að hann fyrirgeri ekki réttinum til að grípa til aðgerða.

Forsætisráðherrann Alexis Tsipras ávarpaði grísku þjóðin í dag og hvatti enn og aftur til þess að hún greiddi atkvæði á móti tillögum lánardrottna ríkisins. Hann hvatti þó til yfirvegunar og sagði að fólk ætti að vega og meta rök málsins, en ekki láta stjórnast af slagorðum.

Hann sagði niðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ósjálfbærni skulda gríska ríkisins réttlæta ákvörðun stjórnarinnar um að hafna tillögum lánardrottna og kallaði eftir því að unnið yrði eftir téðum niðurstöðum; 30% af skuldunum afskrifuð og 20 ára greiðslugrið veitt.

Heildarskuldir Grikklands nema 323 milljörðum evra, en um þriðjungur þeirra er í eigu hinnar svokölluðu „troiku“. Tsipras sagði þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag „tíma ábyrgðar og lýðræðis“ sem væri ætlað að þagga niður í „sírenum eyðileggingarinnar“.

Aftur að samningaborðinu?

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að eilítið fleiri hyggist kjósa gegn tillögum lánardrottnanna en með. Samkvæmt könnun gríska dagblaðsins Avgi hyggjast ætla 43% að kjósa „nei“ og 42,5% „já“.

Samtök grískra fjármálastofnana segja að lausafé grískra banka muni fleyta þeim fram yfir helgi, en frá og með mánudegi verði þeir komnir upp á náð og miskunn Seðlabanka Evrópu.

Ráðamenn í Evrópu hafa í dag enn og aftur hafnað þeim málflutningi grískra stjórnvalda að eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna muni aðilar einfaldlega setjast aftur að samningaborðinu. Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði til að mynda að hann myndi ekki hefja viðræður með öðrum ráðherrum evruhópsins fyrr en hann hefði endurnýjað umboð sitt á þýska þinginu.

Tsipras hefur hvatt þjóðina til að byggja atkvæði sitt á …
Tsipras hefur hvatt þjóðina til að byggja atkvæði sitt á rökum, ekki slagorðum. Víða má hins vegar sjá áróðursspjöld þar sem illvígur Schauble starir á vegfarendur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert