Skólafélagi dómarans brotnaði niður

Dómarinn Mindy Glazer og fanginn Arthur Booth.
Dómarinn Mindy Glazer og fanginn Arthur Booth. Skjáskot

Maður sem grunaður er um innbrot brotnaði niður og grét í réttarsalnum í Miami er hann áttaði sig á því að dómarinn var vinkona hans síðan í barnaskóla. „Hann var hið indælasta barn í skóla. Hann var hið besta barn í skóla. Við lékum okkur í fótbolta,“ sagði dómarinn Mindy Glazer m.a. er mál skólafélaga hennar, Arthurs Booth, var tekið fyrir. Myndband af fundi þeirra má sjá hér að neðan.

Booth var handtekinn á mánudag á bíl sem talinn er hafa komið við sögu í innbroti. Lögreglan elti bílinn og í eftirförinni urðu tvo slys. Lögreglunni tókst svo að stöðva för bílsins með því að aka á hann. Í kjölfarið flúði Booth af vettvangi. Hann náðist þó að lokum og var handtekinn.

Er hann kom inn í réttarsalinn horfði dómarinn rannsakandi á hann um stund og spurði svo: „Gekkst þú í Nautilus-skólann?“

Booth svaraði samstundis og hélt áfram að segja: „Guð minn góður, guð minn góður.“ Í fyrstu brosti hann en að lokum brotnaði hann niður og grét. 

„Mér finnst miður að sjá þig hér,“ sagði dómarinn. „Ég hef oft velt fyrir mér hvað varð um þig.“

Hún sagðist svo vona að honum gengi betur í framtíðinni. „Ég vona að þú komist út úr þessu og farir að lögum.“

Að lokum dæmdi hún að Booth skyldi sleppt úr haldi gegn tryggingu.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/rpQdTyYP808" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert