Þúsundir minntust fórnarlambanna

Elísabet Englandsdrottning og David Cameron forsætisráðherra Bretlands voru meðal þeirra sem tóku þátt í einnar mínútu þögn í hádeginu í dag til minningar um þá sem létu lífið á ferðamannastað í Túnis fyrir viku.

Sky News segir frá þessu. 

38 létu lífið þegar byssumaður hóf skothríð á fólk á strönd við Sousse í Túnis í hádeginu á föstudaginn í síðustu viku. 30 þeirra voru Bretar.

Drottningin tók þátt í einnar mínútu þögn við Strathclyde-háskólann í Glasgow og Cameron gerði það sama í Oxfordshire.

Viðburðum í Wimbledon og í Henley Regatta-róðrarmótinu var frestað til þess að leyfa áhorfendum, keppendum og starfsfólki að minnast fórnarlambanna.

Þeirra var jafnframt minnst í heimabæjum sínum um allt Bretland. Í kirkju heilags Nikulásar í Biddestone í Wiltshire safnaðist fólk saman til þess að minnast Eileen Swannack, sem hafði búið í þorpinu í tugi ára, og sambýlismanns hennar, Johns Welch, sem bjó í næsta þorpi. Þau voru bæði á áttræðisaldri þegar þau létust í árásinni í síðustu viku.

Jafnframt söfnuðust mörg hundruð saman á ströndinni í Sousse í Túnis þar sem fórnarlambanna var minnst. Meðal gesta var sendiherra Bretlands í Túnis, Hamish Cowell, og forsætisráðherra Túnis, Habib Essid.

Nú þegar hefur verið flogið með sautján lík breskra fórnarlamba. Von er á átta líkum í viðbót í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert