Tveir blaðamenn myrtir í Mexíkó

Yfir 80 fjölmiðlamenn hafa verið myrtir á síðustu 10 árunum …
Yfir 80 fjölmiðlamenn hafa verið myrtir á síðustu 10 árunum og er 17 enn saknað. AFP

Útvarpsmaður var skotinn til bana þegar hann yfirgaf hljóðver í suðurhluta Mexíkó í gær. Þá var annar blaðamaður myrtur í austurhluta landsins um svipað leyti.

Filadelfo Sanchez Sarmiento var á leið út eftir beina útsendingu á morgunþætti sínum á útvarpsstöðinni La Favorita þegar tveir vopnaðir menn skutu hann til bana í borginni Miahuatlan í Oaxaca. Leit stendur nú yfir að byssumönnunum.

Samtök sem vernda blaðamenn hafa hvatt yfirvöld í Mexíkó til að rannsaka morðið og þar á meðal öll tengsl við fjölmiðlun. „Þessi glæpur má ekki verða einn af fjölmörgum óupplýstum morðum á blaðamönnum í Mexíkó, sem hefur eitt hæsta hlutfall refsileysis í heiminum,“ sagði Carlos Lauria, talsmaður samtakanna.

Sarmiento var þriðji blaðamaðurinn sem er myrtur í Oaxaca síðan í apríl.

Þá var Juan Mendoza Delgado myrtur í Veracruz, en ekki er vitað hvort morðin tengjast. Delgado var bloggari og fyrrverandi fréttaritari glæpamála hjá dagblaði á svæðinu. Hann er þrettándi blaðamaðurinn sem er myrtur í Veracruz síðan 2010. 

Mexíkó er talinn einn hættulegasti staður heims fyrir blaðamenn, en yfir 80 fjölmiðlamenn hafa verið myrtir á síðustu 10 árunum og er 17 enn saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert