Lýsir yfir neyðarástandi

Ferðamenn leggja blóm á ströndina þar sem árásin átti sér …
Ferðamenn leggja blóm á ströndina þar sem árásin átti sér stað. AFP

Forseti Túnis, Beji Caid Essebsi lýsti í dag yfir neyðarástandi í landinu í kjölfar hryðjuverkaárasa síðustu viku þar sem 38 strandgestir voru skotnir til bana.

„Forsetinn hefur lýst yfir neiðarástandi í Túnis og mun ávarpa þjóðina klukkan 5,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu forsetans en tímasetningin á við klukkan 16 á íslenskum tíma.

Síðast var lýst yfir neyðarástandi í landinu árið 2011 þegar forsetinn Zine El Abidine Ben Ali var rekinn frá völdum í byltingu. Undir formerkjum neyðarástand fékk lögregla og her landsins aukið vald í sínar hendur og var því ekki aflétt fyrr en í mars 2014.

Ofbeldi undir formerkjum „jihad“ hefur aukist mikið í Túnis frá því í byltingunni og hafa tugir lögreglu- og hermanna látið lífið.

Árásin á strandargesti þann 26. júní var önnur morðárásin á ferðamenn á þriggja mánaða tímabili en áður hafði skotárás í þjóðminjasafni í landinu tekið 22 líf.

Á föstudaginn viðurkenndi forsætisráðherra landsins að það hefði tekið lögreglu of langan tíma að bregðast við strandárásinni í síðustu viku. Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á verknaðinum sér á hendur en það var 23 ára karlmaður frá Túnis, Seifeddine Rezgui, sem gekk um með riffil sem hann hafði falið í sólhlíf og skaut allt sem fyrir varð.

30 hinna látnu voru Bretar en þrír Írar, tveir Þjóðverjar, Belgi, Portúgali og Rússi voru einnig myrtir.

Á fimmtudag tilkynntu yfirvöld í Túnis um handtöku sjö karla og einnar konu sem hafa bein tengsl við árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert