„Látinn“ í tíu ár

Sinan Avci reis upp frá dauðum.
Sinan Avci reis upp frá dauðum. AFP

46 ára tyrkneskur maður sem var skráður látinn fyrir mistök hefur síðustu tíu ár barist fyrir því að sanna að hann sé lifandi. Sinan Avci neyddist til að hætta að vinna árið 2003 eftir að hafa greinst með flogaveiki.

Hann áttaði sig á því árið 2004 að hann var skráður látinn eftir að hafa gleymt að taka út bæturnar sínar. „Þeir sögðu mér að ég væri látinn en ég var sprelllifandi,“ sagði Avci. Síðan þá hefur hann átt í vandræðum með að sanna tilvist sína. Avci segist vera óvinnufær vegna veikindanna og vegna þess að hann sé ekki lengur til!

Nágrannafólk hans kallar hann „Sinan hinn dauða“ en hann hefur undanfarið treyst á fjárhagsstuðning vina og vandamanna. Eftir tíu ára baráttu tókst Avci loks í síðustu viku að sanna fyrir yfirvöldum að hann væri lífs en ekki liðinn.

Baráttunni er þó ekki lokið. Núna reynir hann að fá greidd laun og bætur sem hann á inni. „Hvað annað á ég að gera? Ég hef sannað að ég er á lífi en á ég núna að taka af mér hendur og fætur til að sanna að ég sé óvinnufær?“ sagði Avci með grátstafinn í kverkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert