Ákærður fyrir 30 ára gamalt morð

AFP

Breskur maður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir morð sem átti sér stað fyrir rúmlega þrjátíu árum síðan. Christopher John Hampton hefur verið sakaður um að hafa stungið hina sautján ára gömlu Melanie Road til dauða nálægt heimili hennar í Bath í Englandi árið 1984.

Road fannst með fjölmörg stungusár en hún hafði jafnframt orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Í dag er Hampton 63 ára gamall. Samkvæmt frétt Sky News virtist hann rólegur þegar hann mætti í dómsalinn í Bristol Crown í síðustu viku. Hann var klæddur í ljósgráar íþróttabuxur og stuttermabol.

Ráðist var á Road 9. júní 1984. Hún var þá á heimleið eftir að hafa veri úti með vinum sínum í Bath. 

Á síðasta ári hóf lögregla rannsókn á málinu að nýju og voru DNA sýni tekin af mörg hundruð karlmönnum sem voru í Bath á þeim tíma sem Road lést. Hampton var handtekinn í kjölfarið.

Fjölskyldumeðlimir hennar brotnuðu saman í réttarsalnum. Á síðasta ári skrifaði móðir Road og systir opið bréf til þess að lýsa því hvaða áhrif morðið hafði á þær.

„Við syrgjum dóttur okkar og systur Melanie hverja mínútu, hverja klukkustund, dag og nótt,“ skrifaði móðir fórnarlambsins. „Þó þetta hafi gerst fyrir 30 árum síðan, er þetta á hverjum degi og verður aldrei auðveldara, ég get aldrei haldið áfram með líf mitt. Sársaukinn er enn jafn sterkur og þegar að Melanie dó.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert