Eftirmaður Varoufakis kynntur til sögunnar

Euklid Tsakalotos er nýr fjármálaráðherra Grikklands.
Euklid Tsakalotos er nýr fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Aðeins klukkustundum eftir að Yanis Varoufakis sagði af sér sem fjármálaráðherra Grrikklands, hefur verið tilkynnt um eftirmann hans. Sá ber nafnið Euklid Tsakalotos og er líkt og Varoufakis menntaður hagfræðingur.

Sjá frétt mbl.is: Varoufakis segir af sér

Líkt og Varoufakis á hann að baki fortíð sem marxisti og kemur hann úr háskólasamfélaginu. Hann er með doktorsgráðu frá Oxford-háskóla í Bretlandi. Í um 30 ár hefur hann skipst á að kenna í skólum í Bretlandi og Grikklandi auk þess sem hann hefur gefið út fjölda bóka og blaðagreina um hagfræði. 

Í breska dagblaðinu The Telegraph er því haldið fram að hann sé að mörgu leyti afar ólíkur forvera sínum sem þykir meiri uppreisnarsinni.

Tsakalotos hefur reynslu af málefnum Grikklands því í júní leiddi hann samninganefnd Grikkja við Evrópusambandið. 

Telja stjórnmálaskýrendur að Tsakalotos eigi auðveldara með að eiga í samskiptum við kröfuhafa og fulltrúa Evrópusambandsins heldur en forveri sinn. Þegar Varoufakis sagði af sér nefndi hann einmitt þetta. „Ákveðnir fulltrúar Evrópusambandsins hafa lýst því yfir að þeir vilja ekki hafa mig með á fundum. Forsætisráðherra Grikklands hefur tekið undir þau sjónarmið og þess vegna segi ég af mér,“ sagði hann í viðtali þegar afsögn hans var tilkynnt. 

Sjá frétt mbl.is: Pútín heitir Grikkjum stuðningi

Varoufakis er þekktur fyrir að sitja ekki á skoðunum sínum og á stemningin á fundum fulltrúa grísku stjórnarinnar og Evrópusambandsins að hafa verið rafmögnuð á tímabili. Eftir einn fund lýsti Varoufakis stemningunni á samskiptamiðlinum Twitter með eftirfarandi hætti:

„Það sem sameinar fulltrúa Evrópusambandsins er hatur þeirra í minn garð. Og ég tek hatri þeirra fagnandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert