Óttaslegnir eftir mörg mannshvörf

Konurnar voru allar eiturlyfjafíklar og höfðu nokkrar þeirra leiðst út …
Konurnar voru allar eiturlyfjafíklar og höfðu nokkrar þeirra leiðst út í vændi. AFP

Íbúar í smábænum Chillicothe í Ohio í Bandaríkjunum eru margir hverjir óttaslegnir og varir um sig eftir hvarf sex kvenna í bænum síðastliðið ár. Fjórar kvennanna hafa fundist látnar og óttast íbúar bæjarins að fjöldamorðingi sé þeirra á meðal.

Málin sex eru enn óleyst og í rannsókn hjá lögreglu. Þó að ekkert hafi verið útilokað í tengslum við málin telur lögregla líklegt að vafasöm fortíð kvennanna sex hafi leitt til dauða þeirra. Allar voru þær eiturlyfjafíklar og höfðu nokkrar þeirra leiðst út í vændi. 

„Það er einhver þarna úti sem hefur upplýsingar sem munu leysa þetta mál. Við vitum það, við þurfum bara að ná til hans,“ hefur AP-fréttaveitan eftir lögreglumanni í bænum.

Charlotte Trego, 28 ára, hefur verið saknað lengst eða í rúmt ár. Móðir hennar sá hana síðast þegar hún skutlaði henni að íbúð í bænum snemma í maí í fyrra. Hún var eiturlyfjafíkill og gæti hafa leiðst út í vændi, að sögn móður hennar.

Tameka Lynch, 30 ára, hvarf nokkrum vikum síðar. Hún fannst á strönd í lok maí. Móðir hennar segir dóttur sína hafa verið afar vatnshrædda og að hún hefði ekki farið svona nálægt vatni sjálfviljug. Lynch var þriggja barna móðir.

22 þúsund manns búa í bænum Chillicothe. Tæplega einn fjórði íbúa er undir fátæktarmörkum.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert