Barði barn til bana fyrir að fá sér köku

Robert Wilson handjárnaði drenginn og beitti hann mjög alvarlegu ofbeldi.
Robert Wilson handjárnaði drenginn og beitti hann mjög alvarlegu ofbeldi. Lögreglan í Hagerstown

Níu ára gamall drengur er látinn eftir að hann var handjárnaður og barinn fyrir að hafa borðað afmælisköku án leyfis. Lögreglan í borginni Hagerstown í Marylandríki í Bandaríkjunum rannsakar nú málið en kærasti móður drengsins hefur verið handtekinn og ákærður.

Drengurinn lést á sunnudag á barnaspítala í Washington en atvikið hafði átt sér stað fimm dögum áður. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hafði Robert Wilson, kærasti móðurinnar, handjárnað drenginn í refsingarskyni fyrir að hafa borðað köku, en drengurinn átti afmæli þremur dögum áður. Þá hafi Wilson barið barnið ítrekað og neitað síðan að koma honum undir læknishendur í fjórar klukkustundir.

Móðurbróðir drengsins hringdi þá á lögreglu sem mætti á svæðið ásamt sjúkrabíl, en móðir drengsins tók á móti sjúkraliðum og vísaði þeim frá þar sem hún sagði drenginn bara vera þreyttan og ekki þurfa neina hjálp. Nokkrum mínútum síðar komu sjúkraliðar aftur á vettvang eftir að drengurinn var hættur að anda. Drengurinn var þakinn marblettum og hafði hlotið alvarleg meiðsl á andliti, hálsi, baki, rassi, fótum og maga. 

Maðurinn var ákærður fyrir árásina og ofbeldi á barni og var færður í gæsluvarðhald. Eftir að drengurinn lést verður maðurinn þó að öllum líkindum einnig ákærður fyrir morð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert