Engar nýjar tillögur frá Grikkjum

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Grísk stjórnvöld lögðu ekki fram neinar skýrar tillögur til lausnar á skuldavanda Grikklands á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í dag. Þetta sagði Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, eftir fundinn.

Leiðtogar evruríkjanna munu funda í Brussel í kvöld og hafa margir beðið óþreyjufullir eftir því hvað Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur fram á að færa. Muscat sagði hins vegar á Twitter-síðu sinni í dag að fundurinn í kvöld lofaði ekki góðu, miðað við fund fjármálaráðherra fyrr í dag.

Leiðtogar evruríkjanna hafa hvatt grísk stjórnvöld til að leggja fram nýjar umbótatillögur eftir að Grikkir höfnuðu að ganga að samningsboði lánardrottna landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn.

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa sagt mikilvægt að tilboð Grikkja liggi fyrir sem fyrst þannig að hægt sé að finna lausn á vanda ríkisins.

Tsipras mun ávarpa evrópska þingið á morgun, samkvæmt heimildum BBC.

Heimildir herma að grísk stjórnvöld muni ekki leggja fram nýjar tillögur fyrr en á morgun, í fyrsta lagi.

Í frétt BBC segir að Tsipras fari nú fram á að skuldir Grikklands verði lækkaðar um 30%. Þær nema um 323 milljörðum evra. Ekki verði heldur byrjað að greiða af lánum fyrr en eftir tuttugu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert