„Hættið þessari heimskulegu gagnrýni“

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, brást hinn versti við í dag á þingfundi í Evrópuþinginu þegar þingmenn gagnrýndu hann fyrir að vera ítrekað að líta á símann sinn á meðan á fundinum stóð. Sagðist Juncker vera í samskiptum við Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í gegnum textaskilaboð.

„Hættið þessu blaðri um að ég sé að kíkja á símann minn í sífellu. Ég er að senda textaskilaboð til gríska forsætisráðherrans,“ sagði Juncker samkvæmt frétt AFP. Samskipti ráðamanna Grikklands og Evrópusambandsins eru í járnum vegna viðræðna um skuldastöðu landsins en kröfum alþjóðlegra lánardrottna þess var hafnað af grískum kjósendum í þjóðaratkvæði á sunnudaginn.

„Ég veit ekki hvort þið hafið svigrúm til þess að gera það sama en ég verð að gera þetta í dag. Ég er að vinna vinnuna mína. Þannig að hættið þessari heimskulegu gagnrýni, hún á engan rétt á sér,“ sagði Juncker ennfremur. Hópur þingmanna hafði gagnrýnt Juncker, meðal annars frá Breska sjálfstæðisflokknum (UKIP).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert