Handtekin vegna skelfilegrar meðferðar á 14 ára stúlku

Drigger hjónin létu dóttur sína búa í tjaldi í skóglendi.
Drigger hjónin létu dóttur sína búa í tjaldi í skóglendi. Skjáskot af vef NBC

Foreldrar fjórtán ára stúlku í Suður Karólínu í Bandaríkjunum hafa verið handteknir fyrir að neyða stúlkuna að búa í tjaldi í skóglendi. Sendu foreldrar hennar hana út í skóginn eftir að hún fékk sér kex án leyfis.

Að sögn yfirvalda höfðu foreldrar stúlkunnar, James Driggers og Crystal Driggers neitað dóttur sinni um að koma inn í húsið í tvo daga. Átti hún að vera úti í skóginum í heila viku. Stúlkunni var skipað af foreldrum sínum að tjalda í skóginum en vitað er til þess að þar haldi til villisvín. Stúlkan fékk aðeins að taka með sér eina rúllu af klósettpappír, vasaljós, flautu og úr.

Henni var jafnframt sagt af foreldrum sínum að hitta „einhvern“ við girðingu við heimili fjölskyldunnar á sérstökum tímum vildi hún fá mat. Bróðir hennar gaf henni dós með pasta í tómatsósu og plastskeið einn daginn.

Stúlkan þurfti einnig að dúsa í tjaldinu í miklu þrumuveðri á fimmtudagskvöldið.

Amma stúlkunnar hringdi í lögreglu þegar hún heyrði að stúlkan væri geymd úti. Amman fór í rigningunni á fimmtudaginn og sótti stúlkuna og fór með hana heim til sín sem er aðeins hinu megin við hornið.

Eftir að lögregla talaði við foreldranna var stúlkan aftur send heim til sín. Þaðan var hún send aftur út í tjaldið. Það kom í ljós þegar að lögregla kom að heimilinu daginn eftir til þess að athuga með stúlkuna. Stúlkan var þá í skóginum í um 400 metra fjarlægð frá heimilinu.

Fjölskyldan er nú í rannsókn og hefur komið í ljós að síðasta mánuðinn var stúlkunni vísað út af heimilinu klukkan átta að morgni og mátti hún ekki koma aftur heim fyrr en klukkan sex um kvöldið.

„Hún mátti ekki snúa heim útaf einhverri ástæðu,“ sagði talsmaður lögreglunnar Braden Bunch. „Ekki til þess að fá sér að drekka, ekki til þess að nota salernið, ekkert.“ Fjölskyldan býr í Sumter sýslu. Þar hefur hiti farið yfir 37 stiga hita síðustu daga og vikur.

Drigger hjónin eiga fimm önnur börn en fjögur þeirra hafa verið á heimilinu síðustu vikur. Börnin hafa nú verið flutt í umsjá ömmu sinnar og afa en 14 ára stúlkan er nú í umsjá yfirvalda.

Frétt NBC um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert