Þúsundir minnast Lisu Holm

Lisa Holm
Lisa Holm

Von er á þúsundum í útför Lisu Holm, 17 ára, í Svíþjóð í dag en Holm var myrt í síðasta mánuði.

Holm hvarf 7. júní að lokinni vakt á kaffihúsi í bænum Lidköping og fannst lík hennar viku síðar eftir gríðarlega umfangsmikla leit sem fjölmargir sjálfboðaliðar tóku þátt í.

Útförin fer fram í Säters kirkju skammt frá Skövde og hafa fjölmargir fjölmiðlar og syrgjendur boðað komu sína, samkvæmt TT fréttastofunni. 

Fjölskyldu Lisu Holm hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla en komu þó  í viðtal við bæjarblaðið Skaraborgs Allehanda. Þar lýstu þau dóttur sinni sem frekar feiminni skólastúlku en hamingjusamri. „Hún elskaði að ferðast og það var það skemmtilegasta sem hún gerði,“ segir í viðtalinu en Holm dreymdi um að læra arkitektúr í Ástralíu.

Eftir að lík hennar fannst voru tveir bræður og kona handtekin í tengslum við morðið. Yngri bróðirinn og konan hafa verið látin laus en eldri bróðirinn situr í gæsluvarðhaldi. Saksóknari segir að réttarmeinarannsókn hafi styrkt grun lögreglunnar um að eldri bróðirinn, 35 ára, hafi verið að verki en ekki yngri bróðirinn.

Frétt DN.SE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert