Við eigin leiðtoga að sakast

Fréttir lesnar í miðborg Aþenu í morgun
Fréttir lesnar í miðborg Aþenu í morgun AFP

Grikkir ættu að sakast við eigin leiðtoga varðandi kreppuna í Grikklandi en ekki „vondu“ Þjóðverjana, segir utanríkisráðherra Ítalíu, Paolo Gentiloni. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB og Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, vilja alls ekki Grikkir yfirgefi evrusamstarfið.

„Kreppan sem nú ríkir... er ekki til komin vegna „vondra“ Þjóðverja, hún er á ábyrgð grískra ríkisstjórna sem hafa fetað sömu leið síðustu 15-20 ár,“ segir Gentiloni í viðtali við  Corriere della Sera í dag.

Þjóðverjar hafa gegnt lykilhlutverki í því að koma á aðgerðum til þess að skera niður í opinberum rekstri í Grikklandi. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sagði í gær að ekki væri búið að standa við þau skilyrði sem sett væru fyrir nýjum björgunarpakka til handa Grikkjum en þeir höfnuðu á sunnudag þeim skilyrðum sem sett eru fyrir frekari lánveitingum. Lánin voru háð skilyrðum lánadrottna um skattahækkanir og niðurskurð á bótum. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þykir hafa aukið líkur á brotthvarfi Grikkja úr evrusamstarfinu.

Nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefur ekki bætt stöðu mála hjá Grikkjum en niðurstaðan sýnir að forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hefur stuðning meirihluta þjóðarinnar. En það er engin laus, segir Gentiloni í viðtalinu.

Gentiloni hafnar því að Grikkir yfirgefi evrusvæðið og segir að menning, saga og landfræðileg lega landsins ýti á að þeir verði áfram hluti af því samstarfi.

Einfaldar lausnir ekki endilega rétta svarið

„Sú staðreynd að Grikkir eru í ESB og NATO getur ekki verið lítils virði í slíkri greiningu. Þetta segi ég án þess að réttlæta þá hluti sem hafa verið gerðir, eða ekki gerðir af stjórnvöldum í Aþenu undanfarna mánuði,“ segir Gentiloni.

Jean-Claude Juncker sagði í dag að hann væri andsnúinn því að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið þrátt fyrir að mikill meirihluti Grikkja hafi hafnað skilmálum lánadrottna um helgina.

„Það er von mín að það verði hægt að koma í veg fyrir útgöngu Grikkja (Grexit),“ sagði Juncker á Evrópuþinginu í Strassborg í morgun. Neyðarfundur verður haldinn í Brussel meðal leiðtoga evruríkjanna í dag.

Hann segir að ýmsir innan ESB berjist fyrir brotthvarfi Grikkja úr evrusamstarfinu. „Það sem ég hef upplifað á ævinni segir mér að einföldustu svörin eru ekki réttu lausnirnar,“ bætti Juncker við.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna 19 munu hittast í Brussel á fundi klukkan 11 að íslenskum tíma til þess að reifa ástandið áður en leiðtogar ríkjanna hittast á fundi klukkan 16 að íslenskum tíma. 

Juncker seegir að viðræðum við Grikki verði haldið áfram en hvetur forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, til þess að koma sér að efninu - að segja hreint út hvað niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar þýði.

„Nú er tímabært fyrir þá sem eru ekki skyni skroppnir til þess að setjast að samningaborðinu. Gríska sendinefndin gekk af samningafundi. Það var rangt, það voru alvarleg mistök, þú gengur ekki burt frá samningarborðinu,“ segir Juncker sem varar við því að lausnin finnist ekki á einni nóttu. Ef lausn fyndist í dag þá yrði það alltaf einföld lausn. Það sem gera þurfi í dag er að ræða saman, sýna hver öðrum skilning, umburðarlyndi og koma skipulagi á hlutina.

For­sæt­is­ráðherra Frakk­lands, Manu­el Valls, sagði í viðtali við franska rík­is­út­varpið í morg­un að Frakk­ar geti ekki  tekið áhætt­una af því að Grikk­ir yf­ir­gefi evru­svæðið. Það myndi hafa víðtæk efna­hags­leg áhrif út um all­an heim og seg­ist hann telja að það séu for­send­ur fyr­ir því að ná sam­komu­lagi við grísk stjórn­völd.

Að sögn Valls er ekk­ert úti­lokað þegar kem­ur að viðræðum um skuld­ir Grikkja og end­ur­skipu­lagn­inu efn­hags­kerf­is lands­ins.

Skuldir gríska ríkisins samkvæmt frétt BBC:

Skuldafjall upp á 320 milljarða evra. Þar af hefur Evrópusambandið lánað Grikkjum 240 milljarða evra í gegnum lánapakka. Hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu (177%), verg landsframleiðsla hefur dregtist saman um 25% frá árinu 2010 og atvinnuleysi mælist 26%.

Skuldir Grikkja
Skuldir Grikkja
Lánadrottnar Grikkja
Lánadrottnar Grikkja
Manuel Valls
Manuel Valls AFP
Ellilífeyrisþegi bíður við bankann sinn
Ellilífeyrisþegi bíður við bankann sinn AFP
Jean-Claude Juncker
Jean-Claude Juncker AFP
Paolo Gentiloni
Paolo Gentiloni AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert