18 ára í lífstíðarfangelsi?

Lögreglubíll í Utah.
Lögreglubíll í Utah.

18 ára unglingsstúlka í Utah í Bandaríkjunum mun hugsanlega dvelja á bak við lás og slá alla sína ævi. Mál hennar verður tekið fyrir í dag en hún ók á ofsahraða ásamt kærasta sínum sem myrti einn lögreglumann og særði annan. Kærasti hennar féll fyrir hendi lögreglu.

Meagan Grunwald felldi tár í dómssalnum í morgun þegar hún greindi frá því að kærasti hennar, hinn 27 ára Garcia-Jauregui, hafi þvingað hana til að aka í gegnum snævi þakta vegi Utah, otað að henni byssu og hótað fjölskyldu hennar öllu illu.

Talið er að dómur yfir Grunwald verði í minnsta lagi 25 ár. Ekki er hægt að dæma hana til dauða þar sem hún var 17 ára þegar glæpirnir voru framdir.

Jauregui gaf ekki upp rétt nafn þegar hann var stöðvaður ásamt Grunwald. Þegar lögregluþjónninn fylltist grunsemda stakk Jauregui byssunni út um glugga bílsins og skaut lögregluþjóninn sem sat í bifreið sinni.

Saksóknarar í málinu segja að unga konan hafi ekið bíl kærustuparsins þegar þau flúðu af vettvangi og er hún sögð hafa hemlað þannig að kærasti hennar gæti skotið lögreglumann af betra færi. Lögmaður ungu konunnar segir hana hafa verið skelfingu lostna stúlku sem treysti eldri, stjórnsömum manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert