Berlusconi hlaut þriggja ára dóm

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, var í dag fundinn sekur um að hafa mútað öldungadeildarþingmönnum árið 2008 í tilraun til þess að fella þáverandi ríkisstjórn Romanos Prodis.

Dómurinn féll í dómstóli í Napolí á Suður-Ítalíu. Var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi en þarf ekki að sitja inni þar sem málið fyrnist seinna á þessu ári, áður en hægt væri að áfrýja til æðra dómsstigs. Samkvæmt dómnum má hann heldur ekki gegna opinberu embætti næstu fimm árin.

Berlusconi neitaði sök í málinu. Saksóknarar héldu fram fyrir dómi að Berlusconi hafi mútað þingmanninum Sergio De Gregorio sem sat í öldungadeild þingsins fyrir Gildisflokkinn, sem er afar lítill að stærð. Með mútugreiðslunni vildi Berlusconi fá þingmanninn til að kjósa gegn málum ríkisstjórnar Romanos Prodis sem var forsætisráðherra á þessum tíma. De Gregorio viðurkenndi að hafa þegið 3 milljónir evra frá Berlusconi auk þess sem De Gregorio reyndi að fá fleiri þingmenn til að þiggja tilboð Berlusconis. De Gregorio sjálfur var dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir sinn þátt í málinu í sjálfstæðu dómsmáli.

Vörn Berlusconis gekk út á það að halda því fram að peningagreiðslan hafi verið innt af hendi til De Gregorios til þess að aðstoða við stofnun nýs stjórnmálaflokks. „Þetta var stórkostlega ósannfærandi og ósanngjörn niðurstaða,“ sagði Niccolo Ghedini, lögmaður Berlusconis, eftir dómsuppsöguna í kvöld sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á Ítalíu.

Fyrr á þessu ári tók Berlusconi út refsingu vegna dóms sem hann hlaut fyrir skattsvik. Refsinguna fékk hann sökum aldurs síns að taka út með samfélagsþjónustu á elliheimili í Cesano Boscone skatt frá heimabæ hans Mílanó.

Sjá frétt Reuters.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert