Niðurskurðarhnífurinn reiddur til höggs

Fastlega er gert ráð fyrir því að gríska þingið samþykki tillögur ríkisstjórnar Alexis Tsipras um umbætur í efnahagsmálum landsins þrátt fyrir andstöðu meðal þeirra sem eru lengst til vinstri í hans eigin flokki, Syriza.

Með tillögunum er stefnt að því að koma í veg fyrir fjármálahrun Grikklands og koma í veg fyrir mögulega útgöngu Grikkja úr evrusamstarfinu. Fjármálaráðherrar evruríkjanna fara nú yfir tillögur Grikkja, en meðal annars er þar kveðið á um niðurskurð á eftirlaunum og skattahækkanir. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hittast síðan á sunnudag þar sem farið verður yfir tillögurnar.

Talsmaður Syriza á þingi, Nikos Filis, segir í samtali við BBC að hann sé sannfærður um að þingið samþykkti tillögurnar og veiti ríkisstjórninni heimild til þess að leggja þær fram í viðræðum við lánardrottna. Samsteypustjórnin á gríska þinginu er með 162 þingsæti af 300 en margir stjórnarandstöðuþingmenn styðja við tillögur að nýjum lánapakka.

Niðurskurðar- og skattatillögurnar hljóða upp á 13 milljarða evra. Er það hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í tillögunum sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu sl. sunnudag.

Skuldir gríska ríkisins nema 320 milljörðum evra en Grikkir hafa í tvívegis fengið neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, samtals 240 milljarða evra. Þá voru 107 milljarða evra skuldir Grikkja afskrifaðar árið 2012.

En í hverju felast tillögurnar sem Tsipras lagði fram í gær?

Meðal annars verða gerðar breytingar á virðisaukaskattkerfinu og í stað þess að nú sé 13% vsk á veitingastaði og veitingaþjónustu þá hækki hann í 23% en það hlutfall verður ráðandi í virðisaukaskattkerfinu eftir breytingar. Aftur á móti verði virðisaukaskattur á mat, orku og vatn 13%. Virðisaukaskattur á lyf og lækningavörur, bækur og leikhús verði 6%.

Gríska ríkisstjórnin vonast til þess að þessar breytingar skili 1% aukningu tekna af vergri landsframleiðslu.

Dregið verður úr fjárhagsaðstoð þeirri sem grískar eyjur njóta, meðal annars með því að afnema 30% afslátt á vsk sem hefur verið til staðar í mörg ár. Þessum breytingum verður komið á í áföngum, byrjað verður í október að draga úr skattaafslættinum á ríkustu eyjunum og þeim sem eru vinsælastar meðal ferðamanna. Stefnt er að því að þessum aðgerðum ljúki fyrir árslok 2016.

Skattar á fyrirtæki verður hækkaður úr 26% í 28% sem er krafa lánardrottna. Þrátt fyrir það er þetta lægri skattur en lagt var til af lánardrottnum en þeir vildu að skatturinn yrði hækkaður í 29%.

Eins verður skattur á munaðarvöru hækkaður og skattur lagður á sjónvarpsauglýsingar.

Breytingar verða gerðar á eftirlaunaaldri. Hann verður festur í 67 ára aldri en 62 árum hjá fólki sem hefur lagt sitt af mörkum til atvinnulífsins í 40 ár eða meira árið 2022. 

Dregið verður úr framlögum til varnarmála. Meðal annars er lagt til að útgjöld til hersins lækki um 100 milljónir evra á fjárlögum í ár og 200 milljónir evra á næsta ári. Lánardrottnar Grikklands höfðu farið fram á 400 milljón evra niðurskurð á útgjöldum til hersins.

Breytingar verða gerðar á skattkerfinu í þeirri von að hægt verði að draga úr skattsvikum sem eru mikið vandamál í Grikklandi.

Eins verða gerðar breytingar á opinbera kerfinu og meðal annars verður reynt að nútímavæða það.

Gríska ríkisstjórnin stefnir að sölu á hlut ríkisins í fjarskiptafyrirtækinu OTE og að einkavæði hafnirnar í Piraeus og Þessalónikíu ekki síðar en í október.

Ekki hefur verið nánar skilgreint hvernig staðið verður að því að draga úr opinberum skuldum, en það verður gert, samkvæmt heimildum AFP. Skuldirnar nema 180% af vergri landsframleiðslu, 

Þegar er á borði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins lánapakki upp á 35 milljarða evra til þess að koma hjólum efnahagslífsins af stað, samkvæmt heimildum AFP úr herbúðum stjórnvalda í Grikklandi.

Stuðningsmenn Evrópusambandsins komu saman við þinghúsið í Aþenu í gærkvöldi og mótmæltu því að Grikkland myndi yfirgefa evrusvæðið. Fjármálamarkaðir í Evrópu taka vel í tillögur Grikkja því þeir hafa hækkað í morgun. Hið sama á við um gjaldmiðil svæðisins.

Staðið vörð um gríska þingið
Staðið vörð um gríska þingið AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert