Merkel á móti hjónabandi samkynhneigðra

Angela Merkel í umræddu viðtali.
Angela Merkel í umræddu viðtali. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er á móti hjónabandi samkynhneigðra. Hún segist samþykkja staðfesta sambúð en trúi því að heilagt hjónaband sé eingöngu fyrir karl og konu. Hún er á því að allir eigi að njóta sömu réttinda og sagði að það ætti að útrýma mismunun.

Merkel, sem er kristinnar trúar og hefur verið gift tvisvar, sagði hennar skoðun á hjónabandi sem „karl og kona sem búi saman“ í Youtube viðtali.

„Ég styð það að við útrýmum hvers konar mismunun. Við höfum náð mjög langt. Ég man fyrir 25 árum þegar fólk þorði ekki að segja að það væri samkynhneigt,“ sagði Merkel.

„Sem betur fer höfum við komist yfir þann hjalla og núna getur fólk búið í sambúð, staðfestri sambúð. Persónulega finnst mér samt hjónaband vera milli karls og konu sem búa saman. Þetta er mín hugmynd en ég styð staðfesta sambúð. Ég styð að það sé ekki mismunun gagnvart þeim þegar það kemur að sköttum og við komum í veg fyrir hvers konar mismunun.“

Þýski kanslarinn útskýrði mál sitt betur: „Ég vil ekki mismunun og ég vil jafnrétti en ég vil samt einhvern mun.“ Spyrillinn spyr Merkel þá hvort hún sé á móti mismunun en vilji samt að það sé munur á milli þessara hópa. „Enga mismunun. Eins og ég sagði þá er hjónaband maður og kona sem búa saman.“

Talsmaður LGBT samtaka í Bretlandi var ekki sáttur við orð kanslarans. „Getur einhver virkilega sagst vilja eyða allri mismunun ef þeir trúa því að hjónaband fólks af sama kyni ætti ekki að vera skilgreint á sama hátt og hjónaband karls og konu?“

Merkel er dóttir lúthersks prests og er hluti af lúthersku kirkjunni. 

Frétt Independent um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert