Grískir bankar opna að nýju

AFP

Útlit er fyrir að grískir bankar, sem hafa verið lokaðir í nær þrjár vikur, opni aftur á mánudaginn eftir að evrópski seðlabankinn jók neyðaraðstoð við bankana í dag. 

Í stað þess að daglegt hámark sé á úttektum er stefnt að því að setja frekar vikulegt hámark. Áður hafa fjármálaráðherra evruríkjanna samþykkt 7 milljarða evra neyðarlán til landsins til þess að halda fjármálakerfinu gangandi í landinu og er búist við því að það lán verði samþykkt af öllum Evrópusambandsríkjunum á föstudag.

„Frá og með á mánudag munu allir bankar í Grikklandi opna,“ sagði Dimitris Mardas, aðstoðarfjármálaráðherra landsins við sjónvarpsstöðina ERT í dag. Hins vegar munu áfram vera takmörk á úttektum. Eru takmörkin í dag 60 evrur og verða þau aukin hægt og rólega. „Ef einhver vill ekki taka út 60 evrur á mánudag þá mun hann geta tekið út 120 evrur á þriðjudag eða 180 evrur á miðvikudag. Það er útfærslan sem við erum að vinna að og við höldum að hún verði auðveldust í framkvæmd“ bætti Mardas við. 

Sjá frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert