Breivik nemur stjórnmálafræði

Breivik hyggst leggja stund á nám í stjórnmálafræði.
Breivik hyggst leggja stund á nám í stjórnmálafræði. AFP

Umsókn fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik um nám í stjórnmálafræði við Oslóarháskóla hefur verið samþykkt. Rektor skólans, Ole Petter Ottersen, viðurkennir að umsóknin hafi sett skólann í erfiða stöðu siðferðilega.

Breivik hefur tekið einstaka kúrsa frá 2013 en verður nú í fullu námi. Hann mun stunda námið úr klefa sínum og mun hvorki eiga samskipti við kennara né nemendur. Þá mun hann ekki fá aðgang að internetinu.

Að sögn Ottersen eiga fangar í norskum fangelsum rétt á því að stunda nám í Noregi ef þeir uppfylla inntökuskilyrði og standast samanburð við aðra umsækjendur.

Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 2012 fyrir að myrða samtals 77 í sprengjuárás í Osló og skotárás á ungmennabúðir í Útey.

Rektorinn segir að meðal nemenda háskólans séu skyldmenni fórnarlamba Breivik, en að háskólinn muni fara að reglum sjálfs síns vegna, ekki Breiviks.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert