Veita hinsegin fólki skjól

Í Filippseyjum, þar sem stærstur hluti þjóðarinnar eru guðræknir kaþólikkar, stendur hinsegin fólk oft frammi fyrir útskúfun af hálfu kirkjunnar. Eitt guðshús er þó starfrækt í landinu þar sem hinsegin fólk getur komið saman og stundað trú sína án þess að þurfa að afneita kynhneigð sinni.

Í Metropolitan Community kirkjunni (MCC) er fjölbreytileikanum fagnað, og hinsegin fólki veitt skjól. Presturinn sjálfur, Kakay Pamaran, var í mörg ár að sætta sig við eigin kynhneigð út frá trúnni, en hjálpar nú öðrum að gera það auðveldara.

„Þau geta grátið og létt á hjarta sínu. MCC er skjól en til að halda því þannig þurfum við að heyja daglega baráttu,“ sagði Pamaran í samtali við AFP fréttastofuna. 

Samkynhneigð er ekki refsiverð í Filippseyjum en lagasetning gegn mismunun í landinu hefur þó legið inni í þinginu árum saman þar sem yfirvöld vilja ekki setja sig upp á móti þeim strangtrúuðu í landinu.

„Samkvæmt biblíunni skapaði guð Adam og Evu en ekki Evu og Evu eða Adam og Adam. Ekkert okkar væri hér þá,“ sagði erkibiskupinn Oscar Cruz í samtali við fréttastofuna. Slík viðhorf eru algeng, en Michael Mia, einn meðlimur MCC safnaðarins, kom út úr skápnum í fyrri söfnuði sínum og uppskar lítið annað en fordóma. Reyndi presturinn jafnvel að „lækna“ hann af samkynhneigðinni.

„Ég missti næstum trúna á Guð. Ég hélt ég hefði fæðst sem syndari og myndi fara til helvítis fyrir að vera samkynhneigður,“ sagði hann. Mia og hinir meðlimir safnaðarins vonast til þess að viðhorf þeirra smitist til annarra safnaða og út í samfélagið sjálft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert