„Árásarmaðurinn ekki einn um skoðanir sínar“

Erna Solberg forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg forsætisráðherra Noregs. AFP

„Í kjölfar 22. júlí 2011 höfum við sýnt hvað það er sem gerir okkur að einni þjóð. Við berjumst fyrir þeim gildum sem eru mikilvægust fyrir okkur, lýðræði, opið samfélag og gagnkvæm virðing,“ sagði Erna Solberg forsætisráðherra Noregs í ræðu sinni við minningarathöfn um þá sem létust í árásunum fyrir fjórum árums síðan. 

„Samfélagið sem við höfum byggt upp krefst þess að við verndum þessi gildi. Það þarfnast mikillar baráttu. Við sjáum að ungt fólk í Noregi getur heillast af öfgahreyfingum. Sumir ákveða að ferðast erlendis til þess að taka þátt í stríðum á erlendri grundu. Ef við ætlum að berjast gegn öfgavæðingu samfélagsins verðum við að vinna saman. Vinir, samstarfsfélagar og fjölskyldur.“

„Það mikilvægasta sem við gerum er að sýna að okkar gildi munu leiða til betra samfélags. Samfélags sem rúmar alla. Við eigum að tala gegn öfgavæðingu. Við getum öll lagt lóð okkar á vogarskálarnar,“ sagði Solberg við tilfinningaríka athöfn í Osló í dag. 

„Öflugri en nokkru sinni fyrr“

Mani Hussaini, formaður ungra jafnarðarmanna í Noregi, hélt einnig ávarp við athöfnina.

„Fyrir fjórum árum síðan hittumst við öll í Osló með rósir og lofuðum hvoru öðru að svona árás myndi aldrei endurtaka sig. Það loforð felur í sér skuldbindingu. Við skuldbundum okkur til að berjast gegn öfgahreyfingum á hverjum einasta degi. Við verðum að berjast fyrir frelsinu.“

„Öfgahreyfingar er að finna víða um Evrópu og árásarmaðurinn þann 22. júlí 2011 var ekki einn um skoðanir sínar. Við verðum að taka hættunni sem stafar af slíkum hópum alvarlega. Það er hættulegt að stilla þjóðfélagshópum upp á móti hvorum öðrum. Slíkri hatursfullri orðræðu er beitt af mönnum sem vilja ekki fjölbreytt samfélag.“

Hussaini var einnig í útvarpsviðtali fyrr um morguninn þar sem hann ræddi stöðu ungliðahreyfingarinnar eftir árásina. „Við í ungliðahreyfingunni fundum fyrir gríðarlegum stuðningi og við fengum margar nýskráningar. Í dag erum við öflugri en nokkru sinni fyrr. Við erum pólitískt afl og okkar skoðanir og gildi eru fyrirferðamikil í norskri stjórnmálaumræðu. 

Sjá frétt NRK.

Jens Stoltenberg fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og Mette Marit prinsessa fallast …
Jens Stoltenberg fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og Mette Marit prinsessa fallast í faðma við minningarathöfnina. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert